Innlent

Rjómabústýrur strokkuðu smjör og seldu sem danskt til Englands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga.
Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga. Stöð 2/Einar Árnason.

Fornaldarvélar Rjómabúsins á Baugsstöðum austan Stokkseyrar verða gangsettar fyrir ferðamenn allar helgar í júlí og ágúst. Það þótti einstakt fyrir rúmri öld að konur stýrðu þar iðnrekstri til að framleiða danskt smjör en rjómabústýrur ráku búið allt til ársins 1952. 

Rjómabúið, sem stofnað var árið 1905, er einstakt á landsvísu, ekki síst vegna vatnshjólsins. Það er dæmi um vatnsaflsvirkjun í sinni frumlegustu mynd en vatnshjólið knúði maskínuverk innandyra sem framleiddi smjör. 

Rjómabúin voru forverar mjólkurbúanna og urðu alls 34 á landinu á blómaskeiði sínu snemma á 20. öld, og á Baugsstöðum má enn sjá lifandi minjar um þennan iðnað. Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá forstöðumann Byggðasafns Árnesinga, Lýð Pálsson, setja tækjabúnaðinn í gang. 

Lýður sýnir hvernig smjörið var strokkað með vatnsafli frá vatnshjólinu. Stöð 2/Einar Árnason.

Rjóminn var settur í smjörstrokk og smjörið síðan fært yfir á hnoðunarborð og saltað. Að lokum var smjörið pressað í stykki og selt á Englandsmarkað sem danskt smjör undir vöruheitinu „Danish butter“. 

„Við vorum náttúrlega hluti af Danaveldi á þessum tíma,“ segir Lýður. 

Það voru sérmenntaðar rjómabústýrur sem ráku búið fyrir hönd bænda í Flóanum en fátítt var á þeim tíma að konur stýrðu iðnrekstri.

Rjómabústýran Margrét Júníusdóttir, önnur frá vinstri, og aðstoðarkonur hennar, Margrét Andrésdóttir, til vinstri, og hægramegin Ágústa Júníusdóttir og Guðrún Andrésdóttir. Úr bókinni/Rjómabúið á Baugsstöðum 100 ára.

„Og þær síðustu, Margrét og Guðrún, þær biðu rólegar eftir því að Mjólkurbú Flóamanna færi á hausinn. En það gerðist aldrei og rjómabúið var rekið til 1952.“ 

Búið verður opið á laugardögum og sunnudögum í júlí og ágúst milli klukkan eitt og sex og vélarnar gangsettar fyrir gesti. Utan þess tíma er tekið á móti hópum.
 
 

Vatnshjólið er meðal þess sem gerir Rjómabúið einstakt. Það er um fjóra kílómetra austan Stokkseyrar. Stöð 2/Einar Árnason.

„Og græjurnar þær virka alveg fullkomlega. Og eins og þið sjáið hérna bak við okkur; hjólið - það snýst og snýst,“ segir forstöðumaður Byggðasafn Árnesinga. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.