Skoðun

Skálkaskjól

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar

Umfjöllun fjölmiðla um kynferðisbrot og frásagnir brotaþola eru vafalaust einn mikilvægasti þáttur þess að tekist hefur að brjóta niður þagnarmúrinn sem umlukti þessi sársaukafullu mál árum saman. Með því að rjúfa þögnina og ræða þessi viðkvæmu mál opinskátt hafa fjölmiðlar sent botaþolum þau skilaboð að það er hægt að nálgast hjálp og aðstoð. Þú ert ekki ein(n).



Mikilvægi þessa fyrir brotaþola verður seint ofmetið. Þess vegna var dapurlegt að lesa leiðara Kristínar Þorsteinsdóttur, útgefanda Fréttablaðsins, síðastliðinn laugardag. Þar tekur Kristín þennan málaflokk og freistar þess að gera hann að skjóli fyrir ófaglegum og röngum fréttaflutningi fjölmiðla sem hún stýrði í svokölluðu Hlíðamáli.



Í þessum illa ígrunduðu skrifum er látið að því liggja að Hæstiréttur hafi í dómi sínum verið að „hanka blaðamenn á smáatriðum“. Í því samband er rétt að minna á að Hæstiréttur hefur aldrei áður í dæmt jafn marga blaðamenn, fyrir jafn mörg ærumeiðandi ummæli sem viðhöfð voru í jafn mörgum fjölmiðlum og í þessu dómsmáli. Skilaboð Hæstaréttar eru einföld og skýr. Vinnubrög Kristínar og starfsmanna hennar voru með öllu ólíðandi og óverjandi. Miðað við leiðarann virðast þau samt ekki hafa komist til skila.



Staðreyndin er sú að fjölmiðlafólkið sem Hæstiréttur dæmdi í þessu máli virti ekki þær grunnreglur vandaðrar blaðamennsku að ganga úr skugga um að heimildir þeirra væru réttar. Afleiðingin var sú að tveir ungir menn voru rændir ærunni og hrökkluðust úr landi. Í raun er skammarlegt að ekki hafi enn verið beðist afsökunar á þeim hrapalegu mistökum. Enn verra er svo þegar sú sem átti að veita starfsfólki sínu leiðsögn notar eitt af mikilvægustu málum okkar tíma sem skálkaskjól fyrir fúskið.



Höfundur er hæstaréttarlögmaður og flutti mál nr. 729/2017 í Hæstrétti.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×