Körfubolti

Martin: Framtíðin í íslenskum körfubolta björt

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta leikur tvo mikilvæga leiki í undankeppni HM á næstu dögum. Martin Hermannsson er nokkuð brattur fyrir leikjunum þrátt fyrir breytingar á landsliðinu.

„Það er mikil breyting núna á hópnum, við erum að missa risa stóra pósta í fjórum leikmönnum en við eigum fullt af efnilegum leikmönnum og framtíðin í íslenskum körfubolta er björt,“ sagði Martin á æfingu landsliðsins í vikunni.

Jón Arnór Stefánsson mun ekki leika með liðinu vegna meiðsla og þá hafa menn á borð við Loga Gunnarsson og Brynjar Þór Björnsson lagt landsliðsskóna á hilluna á síðustu misserum.

Martin fór á kostum með liði sínu Chalon-Reims í Frakklandi í vetur og vakið athygli víða. Hann hefur ekki ákveðið hvar hann muni spila sinn körfubolta næsta vetur.

„Það er búið að vera mikið að gera en þetta er að skýrast. Ég er kominn niður í svona fjögur lið sem standa til boða, tvö sem eru aðeins heitari en hin tvö,“ sagði Martin Hermannsson.

Ísland mætir Búlgaríu ytra á föstudaginn klukkan 15:00 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×