Skoðun

Menntastefna Íslands til ársins 2030

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Menntakerfi gegna lykilhlutverki í samkeppnishæfni þjóða. Ísland er þar engin undantekning. Ég legg mikla áherslu á að menntakerfið okkar sé sem best í stakk búið til takast á við áskoranir framtíðar. Í því ljósi hef ég hrint af stað undirbúningsvinnu við gerð menntastefnu Íslands til ársins 2030.

Til að bæta lífskjör enn frekar og auka útflutningstekjur landsins þarf að huga sérstaklega að verðmætasköpun byggðri á hugviti og verkþekkingu. Því er nauðsynlegt að efla menntakerfið.

Menntakerfið þarf að skapa sterkan þekkingargrunn, vera sveigjanlegt og geta aðlagað sig tækniþróun á hverjum tíma. Að auki þarf það að veita menntun fyrir alla og þar með mæta mismunandi þörfum einstaklingsins. Skilgreind námsmarkmið þurfa að fylgja hverju hæfniþrepi menntunar og mælikvarðar til þess að meta árangurinn. Við viljum að íslenskt menntakerfi verði í fremstu röð þeirra landa sem við berum okkur saman við.

Nú þegar eru ýmis verkefni í gangi í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem tengjast þessari stefnumörkun. Unnið er að því að bæta umgjörð kennarastarfsins og auka nýliðun kennara. Einnig er verið að efla verk-, iðn- og starfsnám ásamt því að styrkja fullorðinsfræðslu. Verið er að styrkja umgjörð barna með annað móðurmál en íslensku. Fyrirhuguð er skýrari stefnumótun fyrir útgáfu námsgagna og endurskoðun námsmats.

Það sem af er kjörtímabili hafa þegar verið stigin mikilvæg skref til þess að efla menntakerfið. Til að mynda hafa fjárframlög verið aukin verulega til bæði framhaldsskóla- og háskólastigsins, framfærslugrunnur námslána var hækkaður og vinna nýrrar verkefnastjórnar um endurskoðun á námslánakerfinu hefur gengið vel. Við ætlum að halda áfram á sömu braut.

Gerð nýrrar menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 verður heildstæð nálgun á eflingu menntakerfisins og mótuð í samvinnu við lykilaðila. Ég er sannfærð um að sú vinna muni skila sér í öflugra samfélagi og betri lífskjörum fyrir þjóðina.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.