Erlent

Úranauðgun, kjarnorkugarðyrkja og óttinn við íranskt sveppaský

Kjarnorkuáætlun Írans er aftur í fréttum en hver er saga kjarnorkuvopna og hver eru tengsl Írana við þá sögu? Það var jú upphaflega hugmynd Eisenhower Bandaríkjaforseta að kjarnorkuvæða Íran.

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Kjarnorkuáætlun Írans er meira en 60 ára gömul en hefur ítrekað verið stoppuð og sett aftur af stað. Vísir/Getty

Þetta er fyrri hluti fréttaskýringar um kjarnorkusöguna og Íran, seinni hluti birtist á morgun.

Stjórnvöld í Íran hafa gefið til kynna að þau hyggist blása nýju lífi í kjarnorkuáætlun sína ef kjarnorkusamningur þeirra við heimsveldin fellur úr gildi. Trump Bandaríkjaforseti segist ekki ætla að virða samninginn og óvíst er hvort önnur ríki geti bjargað honum ef Bandaríkjastjórn setur strangar viðskiptaþvinganir á Íran og fyrirtæki sem þar stunda viðskipti.
Það er kannski til marks um kaldhæðni örlaganna að það voru einmitt bandarísk stjórnvöld sem hvöttu Írana til að koma sér upp kjarnorkuáætlun á sínum tíma.

Það var í upphafi Atómaldarinnar svokölluðu, á eftirstríðsárunum þegar kjarnorkutækni virtist bjóða upp á óendanlega möguleika. Þeir sem raunverulega skildu kjarnorku voru svo fáir í öllum heiminum að hægt hefði verið að koma þeim fyrir í sæmilegum langferðabíl.

Fallout heitir gríðarvinsæl röð tölvuleikja sem byggir á þeirri óbilandi jákvæðni sem fylgdi Atómöldinni á eftirstríðsárunum vestanhafs. Bethesda Studios

Meira að segja sérfræðingar voru bjartsýnir fram úr hófi.

Nóbelsverðlaunahafinn Glenn T. Seaborg, sem var framkvæmdastjóri bandarísku kjarnorkumálastofnunarinnar í áratug, lét hafa eftir sér að í framtíðinni yrði hægt að ferðast á milli jarðarinnar og tunglsins í kjarnorkuskutlum, græða kjarnorkuknúin gervihjörtu í fólk, hita sundlaugar með plútóni og fleira.

Bara hugmyndin um að hægt væri að kljúfa átómið og leysa úr læðingi nær ótakmarka orku kveikti í ímyndunarafli almennings.

Ægilegur eyðileggingarkraftur kjarnorkuvopna var öllum ljós eftir árásirnar á Hiroshima og Nagasaki en í uppgangi eftirstríðsáranna réði bjartsýnin ríkjum.

Muriel Howorth, forseti The Atomic Gardening Society, sýnir hér jarðhnetuplöntu sem hún ræktaði úr geislavirkri hnetu í bakgarði sínum. Wikipedia/Jacobo37

Upphaf atómaldar og eftirköstin frá Hiroshima

Orðið Atómöld endurspeglar þá hugsun að með því að kljúfa atómið hafi mannkynið hafið nýjan kafla í sögun sinni, rétt eins og þegar hann lærði að gera verkfæri úr steini, verka brons eða rækta korn.

Í framtíðinni átti allt að ganga fyrir kjarnorku og geislun notuð í ótrúlegasta tilgangi.

Kjarnorkugarðyrkja var meðal annars vinsæl um tíma og margir töldu að þar myndi framtíð matvælaframleiðslu liggja.

Svona áttu kjarnorkubílar framtíðar að líta út samkvæmt bílahönnuðum á eftirstríðsárunum Ford Motors

Bílaframleiðandinn Ford þróaði hugmyndir að því hvernig kjarnorkubílar framtíðar myndu líta út og Bandaríkjastjórn varði vel á annað hundrað milljarða króna í að þróa kjarnorkuflugvélar.

Ráðamenn sögðu almenningi að þökk sé kjarnorku myndi rafmagn vera ókeypis í framtíðinni, það myndi ekki svara kostnaði að hafa rafmagnsmæla til að rukka fyrir það.

Tortíming eða tækifæri? Vísir/Getty

Allt reyndist þetta vera tálsýn. Bandaríkjastjórn var á sama tíma að verja gríðarlega miklu skattfé í að byggja sífellt stærri og öflugri kjarnavopn og fljótlega varð ljóst að kapphlaupið við Sovétríkin gæti hæglega endað með tortímingu mannkyns.

Til að réttlæta bæði útgjöldin og hættuna var nauðsynlegt að halda jákvæðri hlið kjarnorkunnar að almenningi og leggja áherslu á hvernig hún gæti breytt heiminum til betri vegar.

Þetta frímerki var gefið út eftir að Eisenhower skýrði markmið sín fyrir heiminum United States Postal Service

Vopnakapphlaup fyrir friðsamari heim

Þann áttunda desember árið 1953 ávarpaði Dwight D. Eisenhower, þáverandi Bandaríkjaforseti, allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Hann lýsti því yfir að kjarnorka væri til komin vegna þess að sköpunarkraftur mannsins væri kraftaverki líkast og nú þyrfti að beislan hann til góðs en ekki ills.

Þetta markaði upphaf alþjóðlegrar áætlunar sem var kölluð „Atoms for peace“ og miðaði að því að breiða út kjarnorkutækni um allan heim.

Eisenhower sagði að með því að gefa heimsbyggðinni aðgang að friðsamri kjarnorkutækni væri hægt að koma í veg fyrir óábyrga útbreiðslu kjarnavopna. Hann lét teikna upp alþjóðlegan samning þess efnis og flest ríki heims samþykktu að koma í veg fyrir útbreiðslu vopnanna.

Um leið (árið 1957) var ákveðið að setja á laggirnar Alþjóðakjarnorkumálastofnunina til að hafa eftirlit með framfylgd samningsins.

Á sama tíma, á forsetatíð Eisenhowers, fjölgaði Bandarískum kjarnavopnum úr rúmnlega 1000 sprengjum í rúmlega 18000 virkar kjarnorkusprengjur. En það var leyndarmál.

Íranskeisari átti greiðan aðgang að Hvíta húsinu öll þau ár sem hann var við völd Hvíta húsið

Bandaríkin og Sovétríkin héldu líka áfram að flytja út tugi tonna af auðguðu úrani til valinna bandamanna sinna undir því yfirskini að það væri allt ætlað til raforkuframleiðslu.

Bandaríkjastjórn styrkti meðal annars byggingu kjarnaofna í Ísrael, Pakistan og Íran. Þess má geta að Íran er eina ríkið af þessum þremur sem ekki býr yfir kjarnavopnum í dag.

Íran er sérstaklega áhugavert tilfelli af því að valdajafnvægi Miðausturlanda var allt annað á þessum tíma. Íranskeisari, Mohammad Reza Pahlavi, var mjög veraldlega sinnaður og nútímalegur leiðtogi sem vesturlöndum leist vel á. Ekki skemmdi fyrir að hann var gjörspilltur og tilbúinn að gera vestrænum fyrirtækjum og ríkisstjórnum ýmsa greiða gegn greiðslu.

Í auglýsingunni segir meðal annars að olíulindir heimsins séu að þrotum komnar og það viti keisari Írans. Vísir/Wikimedia Commons

Vonarstjarna vestursins víkur fyrir eldklerkum

Þá sem nú hafði Bandaríkjastjórn áhyggjur af því að iðnvöxtur landsins væri háður olíuinnflutningi. Lausnin við því var ekki endilega bara að byggja kjarnorkuver í Bandaríkjunum heldur að sannfæra aðrar þjóðir um að gera hið sama til að minnka heimseftirspurn eftir olíu.

Einhver besta áróðursbrellan í því átaki var að fá Íran, af öllum ríkjum, til að byggja kjarnorkuver. „Gettu hver er að byggja sér kjarnorkuver!“ sagði í heilsíðuauglýsingum í tímaritum og dagblöðum.

Hagsmunasamtök bandaríska kjarnorkuiðnaðarins (sem höfðu vægast sagt náin tengsl við stjórnvöld) greiddi fyrir auglýsingarnar og bauð fréttamönnum í heimsókn til að sjá framkvæmdirnar í Íran.

Skilaboðin voru einföld: Meira að segja eitt mesta olíuríki heims sér að framtíðin liggur í kjarnorku.

Í þessari auglýsingu frá áttunda áratug síðustu aldar segir að fjórðungur íranskra kjarnorkuvísindamanna séu konur. Ætla má að hluti þeirra hafi flúið land eftir blyinguna 1979 ásamt mörgu veraldlega þennkjandi menntafólki Vísir/Wikimedia Commons

Árið 1974 undirritaði Íranskeisari samning við vestræn fyrirtæki um að byggja allt að 23 kjarnorkuver fram til ársins 2000. Hann lýsti því yfir að olíulindir heimsins yrðu brátt á þrotum og sagði olíu vera of verðmætt og göfugt efni til að brenna.

Ásamt bandarískum verktökum voru evrópsk fyrirtæki ólm að fá að aðstoða Íran við kjarnorkuáætlun sína á áttunda áratug síðustu aldar.

Þýsku fyrirtækin Siemens AG og AEG, auk franskra ríkisfyrirtækja, fengu stóran skerf af kökunni. Í leynilegri skýrslu Bandarísku leyniþjónustunnar frá þessum tíma segir að líklegt sé að þetta leiði til þess að Íran komi sér upp kjarnorkuvopnum innan tíu ára.

Enginn virtist hafa áhuga á að stöðva það á þeim tíma, enda keisarinn þægur og þægilegur bandamaður Vesturveldanna.

Fyrsta „alvöru“ íranska kjarnorkuverið átti að búa yfir tveimur kjarnaofnum og rísa skammt frá borginni Bushehr. Fyrsta skóflustungan tekið árið 1975 og fjórum árum síðar var bygging annars kjarnaofnsins komin langleiðina og hinn var um 50% tilbúinn að sögn verkfræðinga.

Þá hættu framkvæmdir skyndilega vegna íslömsku byltingarinnar í Íran.

Hinum sjálfskipaða keisara var steypt af stóli og við tók stjórn sem byggði á ströngum túlkunum á Kóraninum og trúarhefðum sjía-múslima.

Allt í einu var Íran ekki lengur táknmynd frelsis og breytinga í Miðausturlöndum. Landið, þar sem slæðan varla sást og sem var frægt fyrir að vera leikvöllur vestrænna glaumgosa, varð skyndilega klerkaveldi sem bölvaði vestrænum áhrifum og veraldarhyggju nútímans.

Merkilegt nokk þá þótti Vesturveldunum ekki lengur spennandi hugmynd að kjarnorkuvæða Íran eftir byltinguna 1979. Erlendir verkfræðingar hurfu á brott nánast yfir nóttu og vestrænar ríkisstjórnir stöðvuðu sendingar af auðguðu úrani til Írans.

Hin rándýra kjarnorkuáætlun Írans varð í raun bensínlaus án úransins, þrátt fyrir að tækjabúnaður og vaxandi vísindaþekking væri til staðar innan Írans. Íranar hafa síðar bent á þetta sem eina helstu ástæðu þess að þeir vilja auðga sitt eigið úran. Án sjálfbærar úranauðgunar geta erlend ríki hæglega kippt stoðunum undan kjarnorkuáætluninni hvenær sem er...
Þetta er fyrri hluti fréttaskýringar um kjarnorkusöguna og Íran, seinni hluti birtist á morgun.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.