Erlent

Dópaði ungbörn til þess að komast í brúnkusprautun

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Sum barnanna voru undir eins árs aldri.
Sum barnanna voru undir eins árs aldri. Visir/pe
January Neatherlin, 32 ára dagmamma í Oregon, hlaut 21 árs fangelsisdóm fyrir vanrækslu á börnum. Henni var meðal annars gefið að sök að byrla börnum sem voru í hennar umsjá svefnlyf. Washington Post greinir frá

Neatherlin lagði í vana sinn að gefa börnunum melatónín í hádeginu en meðan þau sváfu skrapp hún í ýmsar útréttingar, til að mynda á CrossFit æfingu og í brúnkusprautun.

Neatherlin gaf foreldrum barnanna skýr fyrirmæli um að heimsækja dagheimilið ekki á milli ellefu og tvö og lét þá útskýringu fylgja að börnin svæfu á þeim tíma.

Neatherlin á langan glæpaferil að baki en árið 2007 var hún dæmd fyrir auðkennisstuld og þjófnað. Þá hafði hún einnig logið að foreldrum barnanna sem hún gætti að hún væri menntaður hjúkrunarfræðingur.

Fjöldi vitna sagði frá skaðlegum áhrifum lyfjabyrlunarinnar í réttarsal í síðustu viku. Sum barnanna glímdu við svefntruflanir á meðan önnur hlutu alvarlegri skaða vegna meðferðar Neatherlins. Eitt barnanna var flutt á sjúkrahús árið 2014 vegna blæðinga og bólgu á höfði sem það hlaut meðan það var í daggæslu hjá Neatherlin.

Þá bentu foreldrar einnig á að þeir hefðu tekið eftir útbrotum á bleyjusvæði barna sinna, klórförum og ummerkjum um næringarskort.

Neatherlin játaði brot sín fyrir dómi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×