Erlent

BBC biður Sameinuðu þjóðirnar um aðstoð við að vernda mannréttindi blaðamanna

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Tony Hall, útvarpsstjóri BBC, segir að gripið sé til þessa aðgerða nú vegna þess að aðrar tilraunir BBC um að ræða við yfirvöld í Íran hafi verið hunsaðar.
Tony Hall, útvarpsstjóri BBC, segir að gripið sé til þessa aðgerða nú vegna þess að aðrar tilraunir BBC um að ræða við yfirvöld í Íran hafi verið hunsaðar. Vísir/Getty
Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur formlega farið fram á það við Sameinuðu þjóðirnar að gripið verði til aðgerða til að vernda mannréttindi blaðamanna þess í Íran.

Samkvæmt BBC hafa írönsk yfirvöld áreitt og ofsótt blaðamenn þeirra og fjölskyldur í mörg ár. Vandamálið á að hafa versnað á síðasta ári þegar Íranar hófu glæparannsókn með þeim rökum að þjónusta BBC við Persa væri glæpur gegn þjóðaröryggi Íran.

Þá fyrirskipuðu yfirvöld að eignir 152 einstaklinga yrði frystar, og var meirihluti þeirra núverandi og fyrrverandi persneskir starfsmenn BBC.

BBC World Service, sem persneska þjónustan í Íran heyrir undir, hefur ekki fengið fjárframlög frá hinu opinbera frá árinu 2014 og telja írönsk stjórnvöld það renna stoðum undir að starfseminni sé ekki treystandi.

BBC heldur fram að írönsk yfirvöld hafi meðal annars handtekið fjölskyldumeðlimi starfsfólks þess fyrirvaralaust, lagt hald á vegabréf og bannað fólki að yfirgefa landið, njósnað um blaðamenn og fjölskyldur þeirra og dreift rógburði og falsfréttum, þá sérstaklega um kvenkyns blaðamenn.

Hvetja alþjóðasamfélagið tli að grípa til aðgerða

Tony Hall, útvarpsstjóri BBC, segir að gripið sé til þessa aðgerða nú vegna þess að aðrar tilraunir BBC um að ræða við yfirvöld í Íran hafi verið hunsaðar.

„Þetta snýst ekki bara um BBC. Við erum ekki einu fjölmiðlasamtökin sem hafa verið áreitt eða þvinguð til málamiðlana í samskiptum við Íran. Í sannleika sagt er þetta miklu stærra mál. Þetta er mál sem snýst um grundvallarmannréttindi. Við biðlum nú Sameinuðu þjóðirnar um að styðja við BBC og standa með tjáningarfrelsi,“ segir Hall í samtali við The Guardian.

„Íranskir blaðamenn hafa þjáðst í mörg ár, verið þvingaðir í felur, flúið í útlegð, verið handteknir, fangelsaðir og þurft að þola áreitni, ofbeldi og ógnun,“ segir Jeremy Dear, varaformaður Alþjóðasambands blaðamanna (IFJ).

„Íranar leita í auknum mæli til alþjóðlegra miðlar til að fá fréttir af gangi mála í eigin landi. Að herja á fjölskyldumeðlimi í Íran til að þagga niður í blaðamönnum sem starfa í London er eitthvað sem verður sð stöðva. Alþjóðasamfélagið verður að grípa til aðgerða.“

Blaðamenn BBC munu koma fyrir mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í Genf í þessari viku til að kalla eftir því að þjóðirnar grípi til aðgerða til að vernda starfsfólk BBC og tryggja að þau geti stundað frjálsa fjölmiðlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×