Gagnrýni

Þunnildi frekar en þrumandi skemmtun

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Mikið stuð skapast þegar fjölleikhússhópurinn mætir.
Mikið stuð skapast þegar fjölleikhússhópurinn mætir. Þjóðleikhúsið
 • Leikhús
 • Slá í gegn
 • Höfundur: Guðjón Davíð Karlsson
 • Þjóðleikhúsið
 • Leikstjórn: Guðjón Davíð Karlsson
 • Leikarar: Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Örn Árnason, Snæfríður Ingvarsdóttir, Edda Björgvinsdóttir, Jón Gnarr, Sigurður Þór Óskarsson, Sigurður Sigurjónsson, Esther Talía Casey, Hallgrímur Ólafsson, Oddur Júlíusson, Birgitta Birgisdóttir, Þórey Birgisdóttir, Hilmir Snær Guðnason og Bjarni Snæbjörnsson
 • Dansarar: Juliette Louste, Ernesto Camilo Aldazabal Valdes, Hildur Ketilsdóttir, Bjarni Kristbjörnsson, Hjörtur Viðar Sigurðarson og Sölvi Viggósson Dýrfjörð
 • Sviðslistafólk: Nicholas Arthur Candy, Harpa Lind Ingadóttir og Sindri Diego
 • Danshöfundur: Chantelle Carey
 • Tónlistarstjórn: Vignir Snær Vigfússon
 • Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson
 • Búningar: María Th. Ólafsdóttir
 • Lýsing: Magnús Arnar Sigurðarson
 • Hljóðmynd: Kristinn Gauti Einarsson og Kristján Sigmundur Einarsson
 • Myndband: Ingi Bekk, Björgvin Már Pálsson, Árni Jón Gunnarsson og Rúnar Steinn Skaftason

Um síðustu helgi frumsýndi Þjóðleikhúsið söngleikinn Slá í gegn eftir Guðjón Davíð Karlsson sem einnig leikstýrir, en sýningin er smíðuð að stórum hluta úr lögum Stuðmanna. Verkefnið er eitt það stærsta sem Þjóðleikhúsið framleiðir á leikárinu en stór leikarahópur kemur fram í sýningunni ásamt bæði dönsurum og sirkuslistafólki.

Aðstandendur Slá í gegn töfruðu fram nýyrðið „sirkussöngleikur“ til að lýsa verkinu sem er í raun glymskrattasöngleikur skreyttur með fagurfræði fjölleikahússins. Varla er hægt að tala um söguþráð, frekar samhangandi atriði um komu fjölleikhúss í þorp úti á landi. Undirbygging sýningarinnar er veik, hindranir persónanna eru fáar og dramatíkin þess vegna lítil. Fimmaurabröndurum og línum úr kvikmyndinni Með allt á hreinu er síðan sáldrað yfir framvinduna. Þó að sýningin hefjist á stuðslagaranum Betri tíð þá tekur langan tíma fyrir verkið að komast í gang og það höktir til loka.

Vandamálin einskorðast ekki við handritið heldur loða við flestar listrænar ákvarðanir. Mest áberandi er brotakennd leikstjórn Guðjóns og leikmynd Finns Arnar Arnarssonar sem hentar sýningunni engan veginn. Bæjarfélagið sjáum við lítið og innviðir farandvagns Sirkuss Binna og Helgu eru illa skipulagðir á stóra sviðinu. Leikstjórnin og plássfrek sirkusleikmyndin verða þess valdandi að danshöfundurinn Chantelle Carey hefur mjög takmarkað sviðspláss til að vinna með, sem kemur líka niður á hæfileikaríkum dönsurunum. Sviðsdýptin er lítið notuð og fjöllistaatriðin tapast að mestu inni í leikmyndinni því oftar en ekki er alltof mikið að gerast í einu, þá sérstaklega í lokaatriðinu.

Persónusköpunin er afskaplega einföld þó að leikararnir geri sitt besta til að kveikja líf í karakterunum. Gott dæmi um þessa hroðvirkni er persónan Hörður, leikinn af hinum fjölhæfa Oddi Júlíussyni. Hörður er kynntur til sögunnar sem aulasonur þorpslöggunnar Kalla, leikinn af Hallgrími Ólafssyni, hann fær kynningaratriði í byrjun verks og hverfur síðan nánast á brott. Eftir hlé kemur í ljós að drengurinn er rangfeðraður, bögglast í bakgrunninum og fær síðan eitt hresst lag til að flytja í lokin. Þórey Birgisdóttir fær eitt bréf til að spila úr og Hallgrímur eina brúðu sem er aldrei fyndin en lögin hans eru kraftmikil.

Sigurður Þór Óskarsson og Snæfríður Ingvarsdóttir leika ungt fólk sem fella hugi saman. Bæði syngja þau vel en líða fyrir framkvæmdina. Reynslurisarnir Ólafía Hrönn og Örn Árnason bera þetta ferlíki á baki sér af fagmennsku en það dugar ekki til. Þeirra innlegg verður aldrei meira en það sem umgjörðin býður upp á; fínn söngur en sýninguna rekur upp á sker þegar lögunum lýkur.

Brotalömin í persónusköpun verksins birtist með ýmsum hætti. Stundum þurfa persónurnar að útskýra framvinduna fyrir áhorfendum eins og tilviki Sigurðar Sigurjónssonar sem á betra skilið en þetta hlutverk. Í tilvikum þeirra Estherar Talíu Casey og Birgittu Birgisdóttur vantar mikið upp á að þær beri skýr einkenni en aðrar persónur hreinlega brotlenda í miðri sýningu, sem eru örlög Hilmis Snæs Guðnasonar og Bjarna Snæbjörnssonar. Hæfileikar Eddu Björgvinsdóttur fá aldrei að njóta sín undir illa hönnuðu gervinu og Jón Gnarr í hlutverki Sigurjóns digra var alltof stífur framan af. Hann á þó heiðurinn af bestu senu sýningarinnar þar sem Gullna hliðið kemur við sögu.

Sérstaða Stuðmanna felst í skemmtilegum efnistökum, gríðarlega vel skrifaðum textum og góðum tónlistargáfum. Vignir Snær Vigfússon sér um tónlistarstjórnunina, en í stað þess að skapa nýjar útfærslur fara lögin að hljóma öll eins þegar líða tekur á, sem á ekki að vera hægt með þennan efnivið. Töluvert vantar upp á heildarmyndina í búningahönnun Maríu Th. Ólafsdóttur en einstaka samsetning heppnast ágætlega. Myndbandavinnan er aldrei saumuð almennilega inn í sýninguna heldur.

Slá í gegn er samtíningur úr hinum og þessum áttum sem hangir saman á ofurþunnum vír. Leikararnir berjast við að halda sýningunni á lofti, slæm persónusköpun er ekki á þeirra ábyrgð, en svartholið í handritinu og einföld leikstjórnin sýgur alla þá orku til sín. Ef ekki væri fyrir leikaravinnuna og óbilandi kjarna Stuðmannalaganna þá hefði farið verr. Söngleikir eiga auðvitað að vera gleðigjafar en grunngæði skipta höfuðmáli, þau eru ekki að finna hér. 

Niðurstaða: Hér er illa farið með magnaðan lagalista Stuðmanna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.