Erlent

Telur sig hafa borið kennsl á bein Ameliu Earhart

Kjartan Kjartansson skrifar
Earhart öðlaðist heimsfrægð fyrir afrek sín á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Flugvél hennar hvarf yfir Kyrrahafi árið 1937.
Earhart öðlaðist heimsfrægð fyrir afrek sín á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Flugvél hennar hvarf yfir Kyrrahafi árið 1937. Vísir/AFP
Bein sem fundust á eyju í Kyrrahafinu á 5. áratugnum voru úr Ameliu Earhart sem hvarf þegar hún reyndi að verða fyrsta konan til að fljúga í kringum jörðina. Þetta fullyrðir vísindamaður sem rannsakaði beinin þrátt fyrir að réttarlæknir hafi á sínum tíma komist að þeirri niðurstöðu að beinin væru úr karlmanni.

Breskir leiðangursmenn fundu beinin á eyjunni Nikumaroro árið 1940. Flugvél Earhart hvarf yfir Kyrrahafi þremur árum áður. Beinunum var hent eftir skoðun réttarmeinafræðings á sínum tíma.

Richard L. Jantz, prófessor við Tennessee-háskóla, færir hins vegar rök fyrir því að greiningar á beinum hafi verið skammt á veg komnar á 5. áratug síðustu aldar. Það telur Jantz að hafi haft áhrif á kyngreiningu þeirra.

Hann reyndi að bera saman upplýsingar um beinin sem fundust á eyjunni við hæð, þyngd, líkamsbyggingu, útlimalengd og hlutföll Earhart. Þróaði hann meðal annars tölvuforrit til að meta kyn og ætterni út frá mælingum á beinagrind, að sögn Washington Post.

Beinabyggingin passar betur við Earhart en nær alla aðra

Niðurstaða Jantz var að bein Earhart líktust þeim sem fundust á Nikumaroro meira en 99% einstaklinga í stóru úrtaki. Í tilfelli Nikumaroro-beinanna væri hún eina manneskjan sem vitað er um að hafa verið á ferð á þessum slóðum sem þau gætu hafa tilheyrt.

Kenningar hafa áður komið fram um að beinin gætu verið úr Earhart. Jantz birti niðurstöður sínar í vísindaritinu Forensic Anthropology.

Earhart var fyrsta konan sem flaug yfir Atlantshafið. Hvarf hennar hefur verið hulið leyndardómi í hátt í heila öld og hafa fjölmargar kenningar verið settar fram um örlög hennar í gegnum tíðina. Þar á meðal er kenning um að Earhart og Fred Noonan, siglingafræðingur hennar, hafi fallið í hendur Japana sem hafi talið þau bandaríska njósnara. Þau hafi verið pyntuð og myrt.


Tengdar fréttir

Myndin tekin tveimur árum áður en Earhart hvarf

Umdeild ljósmynd sem á að sýna flugkonuna Ameliu Earhart og Fred Noonan í haldi Japana á Jaluit-rifi í Marhsall eyjaklasanum árið 1937 birtist í ferðabók sem gefin var út í Japan árið 1936.

Lést Amelia Earhart í haldi Japana?

Gömul mynd sem fannst nýlega í Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna er sögð gefa í skyn að frægasti kvenkyns flugmaður sögunnar, Amelia Earhart, hafi ekki dáið í flugslysi í Kyrrahafinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×