Handbolti

Gunnar Berg um eldræðu Bjarna Fritz: „Kjánalegt væl“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR í Olís-deild karla í handbolta, var brjálaður út í dómarana eftir tap gegn Stjörnunni á mánudagskvöldið en hann vildi meina að Einar Jónsson, þjálfari Fram, hafði áhrif á dómarana með stanslausu tuði.

„Ég hef aldrei séð annað eins. Ég held að hann hafi ekki einu sinni fengið gult spjald í leiknum. Hann tuðar stanslaust og dómararnir hættu bara að dæma eftir fimmtán mínútur,“ sagði Bjarni meðal annars.

Einar Jónsson hló að eldræðu Bjarna og spurði hvort þetta væri eitthvað nýtt. Hann væri alltaf tuðandi. Einar benti á að Stjarnan hefði ekki fengið eitt vítakast í leiknum en ÍR hefði fengið sex.

„Þetta var áhugavert. Hann var greinilega ekki sáttur við þetta og sagði það,“ sagði Gunnar Berg Viktorsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport HD, í þætti gærkvöldsins.

„Ég vil nú segja að þetta var töluvert mikið væl. Það er alveg rétt hjá Einari að ÍR fékk sex víti en Stjarnan engin víti. Um hvað er Bjarni að tala?“

„Auðvitað eiga menn ekki að tuða yfir dómurunum allan tímann en mér finnst kjánalegt að vera að væla yfir því,“ sagði Gunnar Berg og Sigfús Sigurðsson bætti við:

„Mér fannst dómgæslan eiginlega jöfn yfir allan leikinn. Þegar að menn eru að fara af hálfum hug í gegnum vörnina þá færðu ekkert víti. Ef þú ferð af fullri ferð þá færðu víti. Það virkaði þannig á tímabili hjá ÍR að leikmenn væru með hangandi haus og þá færðu ekkert víti,“ sagði Sigfús.

Viðtalið fræga og umræðuna úr Seinni bylgjunni má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×