Grindavík spilar til átta liða úrslita í Geysisbikar karla í körfubolta eftir öruggan tuttugu og sjö stiga sigur á liði Njarðvíkur b.
Úrvalsdeildarlið Grindavíkur mætti með sína sterkustu menn til leiks í Röstinni í Grindavík í dag gegn b-liði Njarðvíkur í Suðurnesjaslag.
Hlynur Hreinsson skoraði 19 stig fyrir Grindavík í 107-80 sigri heimamanna og Tiegbe Bamba bætti við 17 stigum.
Njarðvík, með Hjört Hrafn Einarsson og Gabríel Möller fremsta í flokki með 18 stig hvor, var yfir 22-25 að loknum fyrsta leikhluta í Grindavík.
Heimamenn settu hins vegar á þá 40 stig í öðrum leikhluta á meðan gestirnir skoruðu aðeins 14 og var staðan því 62-39 í hálfleik og orðið nokkuð ljóst hvernig leikurinn myndi fara.
Grindavík vann báða leikhlutana í seinni hálfleiknum og að lokum var sigurinn öruggur hjá gulum heimamönnum.
Grindavík er fyrsta liðið til þess að tryggja sig inn í átta liða úrslitn. Tveir aðrir leikir fara fram í dag, þar á meðal KR-slagur KRb og aðalliðs KR í Vesturbænum, fjórir á sunnudag og 16-liða úrslitin kklárast með viðureign Þórs og Njarðvíkur í Þorlákshöfn í úrvalsdeildarslag.
