Enska úrvalsdeildin fer aftur í gang í dag eftir hlé vegna bikarkeppninnar um síðustu helgi og það er 23. umferðin sem fer í gang með sjö leikjum.
Við fáum engan hádegisleik þennan laugardaginn og byrjar því veislan klukkan þrjú. Sjónvarpsleikur dagsins er viðureign Englandsmeistara síðustu tveggja ára, Chelsea og Leicester.
Chelsea er í harðri baráttu við Manchester United um annað sæti deildarinnar, en meistararnir eru með einu stigi minna en United. Aðeins tvö stig eru niður í Liverpool í fjórða sætinu svo allt getur gerst í toppbaráttunni, fyrir utan sjálft efsta sætið.
Leicester situr hins vegar nokkuð þægilega um miðja deild í áttunda sæti, og verða þar sama hvernig leikir helgarinnar fara. Þegar þessi lið mættust á King Power vellinum í september fór Chelsea með 1-2 sigur.
Jóhann Berg Guðmundsson fer með liðsfélögum sínum í Burnley niður til London og sækir heim Roy Hodgson og hans lærisveina í Crystal Palace. Hodgson hefur gefið Palace endurnýjun lífdaga og situr liðið í 14. sæti með 22 stig. Burnley hefur aðeins dottið niður frá toppliðunum, en er samt virðingavert í sjöunda sæti með 34 stig.
Nýliðar Huddersfield fá Hamrana hans David Moyes í heimsókn. Aðeins tvö stig aðskilja liðin, en Huddersfield er í 11. sæti með 24 stig og West Ham í því 15. með 22 stig. Huddersfield hefur gert jafntefli í síðustu tveimur leikjum sínum á John Smith's vellinum og West Ham gerði jafntefli í síðustu tveimur útileikjum, svo ef það hefur einhver áhrif þá mun jafntefli líklegast verða niðurstaðan.
Newcastle fær botnlið Swansea í heimsókn á St. James' Park. Swansea getur komist af botninum með hagstæðum úrslitum í dag, en liðið er jafnt að stigum og West Bromwich Albion.
Albion fær nýliða Brighton í heimsókn á The Hawthorns á sama tíma, en Brighton er í 12. sæti með 23 stig. Brighton fór með 3-1 sigur á West Brom þegar liðin mættust á Amex vellinum í september.
Southampton þarf að sækja stig gegn Watford á útivelli til þess að forða sér frá vandræðum, en liðið situr í 17. sæti með 20 stig, líkt og Stoke í 18. sætinu.
Deginum líkur svo með viðureign Tottenham og Everton á Wembley. Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hafa harma að hefna en Spurs unnu 0-3 á Goodison Park fyrr á tímabilinu. Everton er án sigurs í síðustu fjórum deildarleikjum og þarf að passa sig að falla ekki aftur í neðri hluta tímabilsins, en frá níunda sætinu eru aðeins sjö stig niður í það 18.
Leikir dagisns:
15:00 Chelsea - Leicester, beint á Stöð 2 Sport
15:00 Crystal Palace - Burnley
15:00 Huddersfield - West Ham
15:00 Newcastle - Swansea
15:00 Watford - Southampton
15:00 West Bromwich Albion - Brighton
17:30 Tottenham - Everton, beint á Stöð 2 Sport
Upphitun: Gylfi mætir á Wembley
Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mest lesið

Elín Jóna ólétt og verður ekki með á HM
Handbolti





Segir hitann á HM hættulegan
Fótbolti



Belgar kveðja EM með sigri
Fótbolti
