Skoðun

Skrekkur 2018

Þórir S. Guðbergsson skrifar
Þann 12. nóv. var hæfileikakeppni grunnskólanema í Reykjavík, Skrekkur, sýnd í sjónvarpinu. Þar komu fram snjallir og hæfileikaríkir unglingar. Með dansi, söngvum og þróttmiklum sköpunarkrafti og hugmyndaflugi sungu þau um Betri heim – og Árbæjarskóli sigraði með laginu Gott,betra best. Í upphafi sýningar minntu þau okkur á Aladdín þar sem vondi galdramaðurinn kemur við sögu og Rauðhettu og úlfinn frá 17. öld - þar sem úlfurinn táknar hið illa eins og í mörgum sögum.

En börn eru snjallar mannverur. Þau finna lausnir á vandamálum með sinni aðferðarfræði með hjálp foreldra/fullorðinna, með kærleika, aga, frelsi og sveigjanleika.

Því miður er til illt fólk í raunheimum, grimmt og árásargjarnt - svo að börn og ungmenni limlestast – og verða hungurmorða. Fullorðið fólk vegur hvert annað með hryllingssársauka á samfélagsmiðlum og sagt er frá ógnvænlegu ofbeldi í fréttunum úr næsta nágrenni.

– Ber er hver að baki nema sér bróður eigi.

Þann 11. nóv. minntist heimurinn fyrra helstríðsins og Halldór Laxness kvað um heimstyrjöld í orðastað Bjarts í Sumarhúsum:

Spurt hef ég tíu milljón manns

séu myrtir í gamni utanlands...

...því hvað er auður og afl og hús

ef engin jurt vex í þinni krús.

Fjögurra ára sonardóttir biður afa oft og tíðum að leika úlfinn, en með einu skilyrði þó: Með einni handarhreyfingu sveiflar hún ósýnilegum töfrasprota og breytir úlfinum í Góða úlfinn, og heimurinn batnar. Afinn samþykkir það.

Hvernig getur heimurinn batnað, Gott orðið betra og betra best?

Styðjum við unga fólkið. Stöndum saman.

Ímyndum okkur að einn sólríkan vetrarmorgun guði unga Ísland á gluggann okkar sem fagur skógarþröstur og tísti eins og margir hafa kvakað áður með ýmsum orðum:

Hvernig skyldi heimurinn verða ef allir væru almennilegir við alla með ósýnilegri hugarfarsbreytingu?


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.