Erlent

Hvarf Maëlys: Lífsýni stúlkunnar fannst í bíl 34 ára manns

Atli Ísleifsson skrifar
Umfangsmikil leit hefur staðið yfir að Maëlys en hún hefur enn ekki skilað árangri.
Umfangsmikil leit hefur staðið yfir að Maëlys en hún hefur enn ekki skilað árangri. Vísir/AFP
Lögregla í Frakklandi hefur hafið formlega rannsókn á aðild 34 ára manns að hvarfi hinnar níu ára Maëlys de Araujo úr brúðkaupi í austurhluta landsins þann 27. ágúst síðastliðinn.

Í yfirlýsingu frá saksóknara kemur fram að maðurinn hafi verið ákærður vegna málsins.

Franskir fjölmiðlar hafa greint frá því að lífsýni úr stúlkunni hafi fundist á mælaborði í bíl mannsins. Á hann að hafa viðurkennt að stúlkan hafi verið í bíl hans umrætt kvöld en að það sanni ekki sekt hans. Segir lögmaður hans að skjólstæðingur sinn fullyrði að stúlkan hafi ásamt ungum dreng farið inn í bílinn til að athuga hvort að hundur væri þar.

Áður hefur lögmaðurinn sagt manninn hafa þrifið bíl sinn hátt og lágt daginn eftir brúðkaupið þar sem til stóð að selja bílinn sem er af gerðinni Audi A3.

Síðast var vitað til stúlkunnar seint um kvöld í sal fyrir börn í brúðkaupsveislunni sem haldin var í Pont-de-Beauvoisin, norður af Grenoble.

Umfangsmikil leit hefur staðið yfir að Maëlys síðustu daga en hún hefur enn ekki skilað árangri.

Maðurinn sem nú er til rannsóknar er annar tveggja brúðskaupsgesta sem var handtekinn í síðustu viku vegna ósamræmis í sögum þeirra. Þeim var síðar sleppt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×