Erlent

Maður í haldi vegna hvarfs frönsku stúlkunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Stúlkan heitir Maëlys De Araujo.
Stúlkan heitir Maëlys De Araujo.
Karlmaður er í haldi frönsku lögreglunnar vegna gruns um að tengjast máli níu ára stúlku sem hvarf sporlaust úr brúðkaupi í austurhluta landsins um síðustu helgi. Franskir fjölmiðlar greina frá þessu í dag.

Stúlkan heitir Maëlys De Araujo og var gestur í brúðkaupi í bænum Isère ásamt foreldrum sínum og eldri systur. Maëlys er frænka brúðarinnar, en síðast sást til hennar í barnaherbergi á staðnum um klukkan þrjú aðfaranótt sunnudagsins.

Í frétt BBC segir að maðurinn sem er í haldi hafi áður verið yfirheyrður vegna málsins. Hann var ekki einn brúðkaupsgesta.

Einn brúðkaupsgestanna sagði í viðtali við Le Parisien að plötusnúðurinn hafi skyndilega slökkt á tónlistinni í veislusalnum og greint gestum frá því að barns væri saknað. Var fyrst talið að stúlkan hafi verið í feluleik og sofnað einhvers staðar í húsinu en eftir klukkutíma leit var haft samband við lögreglu.

Allir 180 gestirnir í brúðkaupsveislunni voru yfirheyrðir af lögreglu vegna málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×