Erlent

Mál „Raðmorðingjans frá Kontiolahti“ aftur fyrir dóm

Atli Ísleifsson skrifar
Brotin áttu sér öll stað í Norður-Karelíu í austurhluta Finnlands, á árunum 2007 til 2014. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Brotin áttu sér öll stað í Norður-Karelíu í austurhluta Finnlands, á árunum 2007 til 2014. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Mál hins 52 ára Finna, Pekka Tapani Seppänen verður nú tekið fyrir hjá áfrýjunardómstól í Finnlandi, en Seppänen hlaut í héraðsdómi fjórtán og hálfs árs dóm fyrir að hafa drekkt tveimur, manndráp af gáleysi, tilraunir morðs, auk fjölda brota til viðbótar.

Seppänen hefur verið kallaður „Raðmorðinginn frá Kontiolax“ en hann framdi brot sín í Norður-Karelíu í austurhluta Finnlands á árunum 2007 til 2014.

Á hann að hafa neytt fórnarlömb sín, sem flest voru illa synd, um borð í bát og siglt þeim út á stöðuvatn og látið þá falla útbyrðis.

Einnig kom fram fyrir dómi að fórnarlömbin hafi setið að sumbli með Seppänen og var upphaflega talið að um slys hafi verið að ræða sem rekja mætti til áfengisneyslu.

Eftir að dómurinn féll í héraði fór fram umfangsmikil leit að Seppänen en hann fannst loks og var handtekinn í bænum Joensuu.

Seppänen fór fram á að verða sleppt áður en málið var tekið fyrir hjá áfrýjunardómstólnum, en þeirri beiðni var hafnað.

Saksóknarar, aðstandendur fórnarlamba og Seppänen áfrýjuðu öll dómi héraðsdómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×