Erlent

Frakkar jákvæðir í garð tillagna Macron

Atli Ísleifsson skrifar
Emmanuel Macron segir Frakka „hata umbætur“.
Emmanuel Macron segir Frakka „hata umbætur“. Vísir/AFP
Meirihluti Frakka er jákvæður í garð tillagna Emmanuel Macron Frakklandsforseta um breytingar á vinnumarkaðslöggjöf landsins sem ætlað er að auka sveigjanleika á vinnumarkaði.

Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar Le Figaro og France Info, en Macron kynnti tillögurnar í gær. 52 prósent aðspurðra sögðust telja að fyrirhugaðar breytingar myndu hafa jákvæð áhrif í baráttunni gegn atvinnuleysi í landinu. Þá sögðust 57 prósent aðspurðra telja að Macron hafi haft rétt fyrir sér þegar hann sagði Frakka „hata umbætur“.

Atvinnuveitendur virðast sömuleiðis jákvæðir í garð tillagna forsetans. Þær ganga meðal annars út á að auka möguleikann á tímabundnum ráðningum, auðvelda vinnuveitendum að segja upp fólki með því að draga úr starfslokagreiðslum, og auka möguleika smærri fyrirtækja að semja sjálf við launþega í stað þess að fara að ákvæðum miðlægra samninga.

Atvinnuleysi mælist um 10 prósent í Frakklandi.

Stéttarfélög hafa þó sum lýst yfir vanþóknun sinni á tillögunum. Þannig hefur CGT hvatt til verkfalla og mótmæla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×