Erlent

Mnuchin segir ekki í forgangi að koma Harriet Tubman á seðil

Atli Ísleifsson skrifar
Jack Lew, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Barack Obama, lagði til að andlitsmynd af Harriet Tubman yrði komið fyrir á 20 dala seðlinum.
Jack Lew, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Barack Obama, lagði til að andlitsmynd af Harriet Tubman yrði komið fyrir á 20 dala seðlinum. Vísir/AFP
Jack Lew, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Barack Obama, lagði á síðasta ári til að mynd af Harriet Tubman, sem barðist fyrir frelsun þræla á nítjándu öldinni, yrði á nýjum tuttugu dala seðli.

Með tillögu sinni lagði Lew til að sjöunda forseta Bandaríkjanna og þrælahaldaranum Andrew Jackson, yrði þar skipt út á framhlið seðilsins fyrir Tubman en að andlit Jackson yrði áfram á bakhliðinni. Skyldi það gert við fyrirhugaða endurhönnun árið 2020.

Núsitjandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Steve Mnuchin, segir málið þó ekki vera í neinum forgangi hjá sér. „Við munum líta á þetta. En þetta er ekki mál sem ég einbeiti mér að nú,“ sagði Mnuchin í samtali við CNBC.

Vitað er að Andrew Jackson er í uppáhaldi hjá Donald Trump Bandaríkjaforseta sem hefur komið portrettmynd af Jackson fyrir á forsetaskrifstofunni.

Í kosningabaráttunni sagði Trump að „Harriet Tubman væri frábær“ en að það væri sér ekki að skapi að skipta Jackson út fyrir Tubman vegna „pólitísks rétttrúnaðar“.

Tubman fæddist árið 1822 og var haldið sem þræl á fyrri hluta nítjándu aldarinnar. Síðar átti hún eftir að aðstoða hundruð þræla að flýja frá þrælahöldurum sínum. Hún lést sem frjáls kona árið 1913.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×