Erlent

Blindur heimsmetahafi gengur yfir Ísland

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mark er mikill útivistarmaður og þrefaldur heimsmethafi.
Mark er mikill útivistarmaður og þrefaldur heimsmethafi. Mark Threadgold
Mark Threadgold, blindur fyrrverandi hermaður, leggur nú lokahönd á undirbúning fyrir þriggja daga óbyggðagöngu um Ísland. Gangan er liður í söfnunarátaki fyrir samtök sjóndapra fyrrum hermanna í Bretlandi og verður lagt af stað í fyrramálið.

Rætt er við Threadgold á vef The Argus þar sem hann segist hafa heyrt af hlaupinu í líkamsræktarstöð samtakanna. „Ég er alltaf til í áskorun svo ég sagði, „hvers vegna ekki? Þannig var það nú!“ segir Threadgold, sem missti sjónina í slysi árið 1999.

Hann er mikill útivistarmaður og hefur Threadgold meðal annars klifið fjöllin Ben Nevis og Snowdon það sem af er ári. Þá er hann einnig handhafi þriggja heimsmeta; fyrir hraðbátabrun, köfun og þá er hann jafnframt fljótasti blindi maður til að róa í kringum Isle of Wight.

Hann segir Íslandsferð sína vera lið í undirbúningi sínum fyrir Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku, sem hann hyggst klífa í október. „Það er það besta við þetta. Íslandsferðin verður bæði framhald á æfingunum mínum sem og frábær upplifun,“ segir Threshold.

„Ég er fullkomlega blindur þannig að það er mikilvægt að traustið sé til staðar. Mér til halds og trausts verða tveir leiðsögumenn frá samtökunum þannig að ég veit að ég verð í góðum höndum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×