Tómas Þór Þórðarson fékk góðan gest í Seinni bylgjuna í þættinum í gær en Evrópumeistaraþjálfarinn Dagur Sigurðsson var annar af spekingum þáttarins.
Dagur Sigurðsson vann bæði EM-gull og ÓL-silfur með þýska handboltalandsliðið árið 2016 en hann er núna þjálfari japanska landsliðsins sem er að undirbúa sig fyrir Ól í Tókýó 2020.
Dagur sagði sína skoðun á heitustu málunum eftir sjöundu umferð Olís deildar karla en hann bauð líka upp á létta kennslustund á teiknitöflunni.
Síðast þegar Dagur kom þá var hann að útskýra leikkerfið vinsæla Kaíró en nú tók Dagur fyrir annað fyrirbæri sem er algengt í handboltanum.
„Það er annað sem við heyrum oft í handboltanum og það er: Hann leysir inn. Um hvað er verið að tala,“ spurði Tómas Þór Þórðarson og sendi boltann yfir á Dag sem var kominn við teiknitöfluna.
Það má sjá töflufundinn með Degi Sig í spilaranum hér fyrir ofan.

