Sebastian kom í þáttinn í gær vopnaður samanburði á síðustu þremur leikjum Gísla og Selfyssingsins Hauks Þrastarsonar sem hefur vakið athygli fyrir góða frammistöðu í vetur.
„Það er auðvitað geggjað hæp í kringum Gísla sem er frábært efni og verður okkar besti handboltamaður í 10-15 ár,“ sagði Sebastian.
„Það eru allir að segja að hann eigi að fara á EM í Króatíu. Haukur er yngri. Af hverju á hann ekki að fara? Bara svona til að skapa mér ennþá meiri vinsældir í Hafnarfirði,“ bætti Sebastian við.
Hann segir tími Gísla með landsliðinu komi fyrr en seinna og það sé engin ástæða til að ana að neinu.
„Það liggur ekkert á með Gísla. Það er það sem ég er að segja. Þessi tölfræði sýnir að það er einn yngri sem er jafngóður, ef ekki betri,“ sagði Sebastian.
Jóhann Gunnar Einarsson er á því að Gísli sé betri leikmaður. Hann fagnar því hins vegar að tveir svona framúrskarandi ungir leikmenn komi fram á sjónarsviðið á sama tíma.
Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.
