Erlent

Sökuð um að hafa myrt ólétta konu til að stela barninu

Samúel Karl Ólason skrifar
William Hoehn og Brooke Crews eru grunuð um að hafa myrt Savanna Lafontaine-Greywind og stolið barni hennar.
William Hoehn og Brooke Crews eru grunuð um að hafa myrt Savanna Lafontaine-Greywind og stolið barni hennar. Lögreglan í Fargo
Grunur leikur á að karl og kona í Bandaríkjunum hafi myrt 22 ára gamla konu sem var komin átta mánuði á leið til þess að stela barni hennar. Lík Savanna Lafontaine-Greywind fannst í á nærri bænum Fargo í Norður-Dakota á sunnudaginn eftir átta daga leit.

Lögreglan segir að bráðabirgðaniðurstöður krufningar sýni fram á að Greywind hafi verið myrt.



Þau William Hoehn og Brooke Crews hafa verið handtekin eftir að lögreglan fann nýfætt barn í íbúð þeirra, samkvæmt Minneapolis Star Tribune.



Hoehn og Crews hafa verið margsaga um hvernig þau fengu barnið í sínar hendur, en grunur leikur á að það sé barn Greywind. Samanburði á erfðaefnum barnsins og Greywind hefur ekki verið lokið.

Samkvæmt frétt BBC segir Crews að Greywind hafi bankað upp á sér og spurt sig hvernig hún gæti flýtt fæðingu barnsins. Þær bjuggu í sama húsi. Þá hafi hún komið aftur tveimur dögum síðar og litið sig hafa barnið.



Hoehn sagði lögregluþjónum aftur á móti að þegar hann hefði komið heim einn daginn hefði hann komið að maka sínum þar sem hún hafi verið að þrífa blóð af gólfinu. Þá hafi hún rétt honum barnið og sagt það vera nýtt barn þeirra.

Þá viðurkenndi hann að hafa losað sig við blóðug handklæði og skó víðs vegar um bæinn.

Kærasti og barnsfaðir Greywind hefur kvartað yfir því að hafa ekki fengið að sjá barnið. Þrátt fyrir að Crews hafi viðurkennt að þetta væri barn hans og Greywind. Yfirvöld segjast ekki geta leyft það fyrr en samanburði á erfðaefnum barnsins og Greywind verður lokið.

„Þau viðurkenna að þetta sé barnið okkar. Ég get lofað því að ef ég sé það muni ég þekkja það. Það skiptir þó ekki máli hvað mér finnst. Þeir hafa starfsreglur og vinna eftir þeim,“ sagði Ashton Matheny í samtali við Pioneer Press.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×