Erlent

Hlutkesti gæti ráðið úrslitum í kosningum í Virginíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Enn liggur ekki fyrir hvort að Shelly Simonds eða David Yancey hafi sigrað í einu kjördæma Virginíuríkis.
Enn liggur ekki fyrir hvort að Shelly Simonds eða David Yancey hafi sigrað í einu kjördæma Virginíuríkis. Vísir/Getty
Útlit er fyrir að hlutkesti ráði úrslitum um hvort að repúblikanar halda meirihluta sínum í ríkisþingi Virginíu í Bandaríkjunum. Endurtalning hafði gefið demókrötum sigur með einu atkvæði en dómstóll hefur nú úrskurðað vafaatkvæði repúblikönum í vil.

Gríðarlega mjótt var á mununum í 94. kjördæmi í kosningum til fulltrúadeildar ríkisþings Virginíu sem fóru fram 7. nóvember. Svo virtist sem að demókratinn Shelly Simonds hefði unnið sigur með einu atkvæði gegn repúblikananum David Yancey eftir endurtalningu.

Þetta eina atkvæði hefði reynst afdrifaríkt því það hefði bundið enda á meirihluta repúblikana í deildinni sem þeir hafa haldið í sautján ár. Demókratar og repúblikanar hefðu verið með jafnmarga fulltrúa í deildinni.

Dómstóll úrskurðaði hins vegar í dag að endurtalningin væri ógild. Þrír dómarar töldu að atkvæði sem úrskurðað hefði verið ógilt ætti að vera talið sem atkvæði fyrir Yancey þrátt fyrir að kjósandinn hefði merkt við báða frambjóðendur, að því er segir í frétt Washington Post.

Það þýðir að repúblikanar og demókratar hlutu jafnmörg atkvæði. Ríkislög Virginíu kveða á um að kasta skuli upp um sigurvegara ef jafnt er. Formaður kjörstjórnar segir líklegast að nafn sigurvegarans verði dregið úr glerskál.

Ekki liggur fyrir hvenær dregið verður um sigurvegara. Í millitíðinni halda repúblikanar eins manns meirihluta í fulltrúadeildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.