Erlent

Tugir látnir í stórbruna í Suður-Kóreu

Atli Ísleifsson skrifar
Í byggingunni er meðal annars að finna líkamsræktarstöð og veitingastaðir.
Í byggingunni er meðal annars að finna líkamsræktarstöð og veitingastaðir. Vísir/AFP
Að minnsta kosti 29 eru látnir og 26 hafa slasast eftir stórbruna í átta hæða húsi í suður-kóresku borginni Jecheon fyrr í dag.

Eldurinn kom upp í bíl í bílastæðakjallara klukkan 16 að staðartíma og var hann fljótur að dreifa úr sér. Í byggingunni er meðal annars að finna líkamsræktarstöð og veitingastaðir. Margir þeirra sem fórust voru í gufubaði á líkamsræktarstöðinni.

Talsmaður slökkviliðs í Jecheon segir að eitrað gas hafi orðið til þess að mörgum afi mistekist að komast út. Óttast er að tala látinna komi til með að hækka enn frekar þegar betur verður leitað í húsinu. Tuttugu tókst að bjarga eftir að þeir höfðu flúið upp á þak hússins og var notast við þyrlu til að koma þeim í öruggt skjól.

Að minnsta kosti sextíu slökkviliðsmenn tóku þátt í slökkvistarfinu.

Moon Jae-In, forseti Suður-Kóreu, ákvað að fresta sérstakri athöfn vegna harmleiksins, en til stóð að fara með Ólympíueldinn í gegnum borgina í dag. Vetrarólympíuleikarnir fara fram í suður-kóresku PyeongChang dagana 9. til 25. febrúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×