Erlent

Banna fóstureyðingar þegar Down-heilkenni greinist

Kjartan Kjartansson skrifar
Andstæðingar fóstureyðinga í Ohio unnu sigur í dag.
Andstæðingar fóstureyðinga í Ohio unnu sigur í dag. Vísir/AFP
Læknar í Ohio-ríki í Bandaríkjunum mega ekki lengur eyða fóstri þegar Down-heilkenni greinist í því. John Kasich, ríkisstjóri Ohio og repúblikani, skrifaði undir lög þess efnis í dag en tvö önnur ríki Bandaríkjanna hafa samþykkt sambærileg lög.

Samkvæmt lögunum gætu læknar átt yfir höfði sér opinbera ákæru fyrir refsivert athæfi ef þeir eyða fóstrum í þessum tilfellum. Þá gætu þeir misst lækningaleyfi sín, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Andstæðingar fóstureyðinga fögnuðu staðfestingu laganna en fylgjendur þeirra segja að þau muni hafa „hrollvekjandi áhrif“ á samskipti lækna og skjólstæðinga þeirra.

Sambærileg lög hafa verið samþykkt í Norður-Dakóta og Indíana en alríkisdómari í síðarnefnda ríkinu felldi þau úr gildi þar. Taldi dómstóllinn að ríkið hefði enga heimild til þess að takmarka á hvaða forsendum konur hefðu rétt á að fara í fóstureyðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×