Erlent

Ekki hryðjuverk heldur fjárkúgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jólamarkaður í miðborg þýsku borgarinnar Potsdam var rýmdur síðdegis á föstudag.
Jólamarkaður í miðborg þýsku borgarinnar Potsdam var rýmdur síðdegis á föstudag. Vísir/AFP
Lögregla segir sprengju, sem fannst á jólamarkaði í þýsku borginni Potsdam á föstudag, ekki tengjast hryðjuverkastarfsemi. Þeir sem báru ábyrgð á sprengjunni hafi ætlað að kúga fé út úr þýsku hraðsendingarþjónustunni DHL. BBC greinir frá.

Jólamarkaður í miðborg þýsku borgarinnar Potsdam var rýmdur síðdegis á föstudag eftir að yfirvöld fundu grunsamlegan böggul sem lögreglan óttaðist að væri heimagerð sprengja.

Pakkinn grunsamlegi hafði verið sendur í apótek sem er nálægt markaðnum. Starfsmaður í apótekinu tilkynnti málið til lögreglu og var böggullinn gegnumlýstur í kjölfarið. Við skoðunina kom í ljós að hann innihélt nagla í þúsundatali, víra og rafhlöður.

Við rannsókn á bögglinum fannst enn fremur QR-kóði sem lögregla skannaði. Við það kom í ljós að þeir sem höfðu sent sprengjuna í apótekið hugðust kúga milljónir evra út úr þýsku hraðsendingarþjónustunni DHL, sem sá um sendinguna. Yrði greiðslan ekki framkvæmd sögðust þeir ætla að setja sprengjuna af stað.

Yfirvöld segja því fullljóst að pakkinn hafi ekki verið ætlaður jólamarkaðnum og að ekki hafi verið um hryðjuverk að ræða.

Mikill viðbúnaður er í Þýskalandi vegna ótta um hryðjuverkaárásir. Í desember á síðasta ári létust tólf manns í hryðjuverkaárás á jólamarkaði í Berlín þegar maður ók vörubíl inn í þvögu fólks á markaðnum. ISIS hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamska ríkið lýstu yfir ábyrgð á árásinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×