Erlent

Grunaður raðmorðingi handtekinn í Tampa

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglustjórinn Brian Dugan greinir frá handtökunni á blaðamannafundi í gær.
Lögreglustjórinn Brian Dugan greinir frá handtökunni á blaðamannafundi í gær. tampa pd
Lögregla í borginni Tampa í Flórída hefur handtekið 24 ára karlmann sem grunaður er um fjögur morð síðan í byrjun október. Morðin hafa vakið mikinn óhug meðal í búa borgarinnar. Washington Post segir frá málinu.

Maðurinn var færður til yfirheyrslu og handtekinn eftir að lögreglu barst tilkynning um að sést hafi til hans á veitingastað McDonald‘s þar sem hann var vopnaður skammbyssu. Lögreglustjórinn Brian Dugan segir manninn heita Howell Emanuel Donaldson III og að hann hafi verið starfmaður skyndibitastaðarins.

Dugan segir að Donaldson verði ákærður fyrir morðin fjögur en það fyrsta var framið þann 9. október síðastliðinn þegar 22 ára karlmaður var skotinn til bana í hverfinu Seminole Heights.

Tveimur dögum síðar var 32 ára kona skotin til bana og þann 19. október tvítugur maður. Þá var sextugur karlmaður drepinn þann 14. nóvember þegar hann var skotinn í hnakkann.

Svo virðist sem að fórnarlömb mannsins hafi verið tilviljanakennd og lýsti lögregla því yfir að morðin kunni að vera verk raðmorðingja sem gengi laus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×