Viðskipti innlent

Hafnar 14,5 milljóna kröfu Benna í slitabú

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði öllum kröfum Benedikts Eyjólfssonar, sem kenndur er við Bílabúð Benna, í málinu.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði öllum kröfum Benedikts Eyjólfssonar, sem kenndur er við Bílabúð Benna, í málinu. Vísir/Vilhelm
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í síðustu viku kröfu Benedikts Eyjólfssonar, sem er jafnan kenndur við Bílabúð Benna, um að 14,5 milljóna króna fjárkrafa hans yrði viðurkennd sem almenn krafa í slitabú gamla Landsbankans.

Benedikt átti meðal annars í afleiðuviðskiptum við Landsbankann árið 2007. Krafðist hann þess fyrir dómi að krafa hans, upp á 14,5 milljónir króna, yrði viðurkennd við slitameðferð gamla Landsbankans og að henni yrði jafnframt skipað í réttindaröð sem almennri kröfu.

Byggði hann á því að Landsbankinn hefði innleyst og ráðstafað umræddum fjármunum án heimildar af vörslureikningi hans hjá bankanum vegna uppgjörs á framvirkum samningi í október árið 2007. Hélt Benedikt því fram að honum hefði verið ókunnugt um þessi viðskipti og að þau hefðu verið gerð í hans óþökk.

Slitastjórn bankans mótmælti þessum málatilbúnaði. Hafnaði hún kröfunni á þeim grundvelli að ekki væri fyrir hendi viðurkennd bótaskylda, enda hefði ekki verið sýnt fram á að Landsbankinn hefði sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari komst að þeirri niðurstöðu að Benedikt hefði ekki tekist að sýna fram á að umræddur framvirkur samningur hefði verið gerður í hans óþökk. Auk þess hefði Benedikt vegna eigin tómlætis glatað rétti til að bera fyrir sig mótbárur um skuldbindingargildi samningsins og uppgjör hans þegar hann beindi loks kröfu að slitastjórn Landsbankans í október árið 2009. Var kröfu hans í slitabúið þannig hafnað.

Var Benedikt enn fremur gert að greiða gamla Landsbankanum 850 þúsund krónur í málskostnað. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×