Körfubolti

Þór meistari meistaranna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Græni drekinn frá Þorlákshöfn
Græni drekinn frá Þorlákshöfn
Þór frá Þorlákshöfn er meistari meistaranna eftir að bera sigurorð af Íslands- og bikarmeisturum KR í Meistarakeppni KKÍ sem fram fór í Keflavík í dag.

KR-ingar byrjuðu leikinn betur og voru yfir 26-21 eftir fyrsta leikhluta. Þeir áttu hins vegar slæman annan leikhluta og var staðan í hálfleik 40-46 fyrir Þór.

Mjög jafnt var með liðunum í seinni hálfleik og var leikurinn æsispennandi. Þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum var þriggja stiga munur á liðunum, 79-82.

Þórsarar náðu að sigla sigrinum heim og unnu 86-90 sigur.

Undir lok leiksins meiddist Jón Arnór Stefánsson á fæti og virtist sárþjáður. Hann skreið af velli og inn á gang þar sem hann féll til jarðar og þurfti aðhlynningu.

Stigahæstur í liði Þórs var Jesse Pellot-Rosa sem skoraði heil 37 stig í leiknum, tók 11 fráköst og 2 stoðsendingar. Næstur var Emil Karel Einarsson með 14 stig, 7 frákost og 2 stoðsendingar.

Stigahæstur hjá KR var Pavel Ermolinskij með 17 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar. Jón Arnór Stefánsson skoraði 16 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×