Erlent

34 dæmdir í lífstíðarfangelsi í Tyrklandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum gegn hinum dæmdu fyrir utan dómshúsið.
Frá mótmælum gegn hinum dæmdu fyrir utan dómshúsið. Vísir/AFP
Þrjátíu og fjórir menn voru í dag dæmdir í lífstíðarfangelsi í Tyrklandi fyrir að reyna að ráða Recep Tayyip Erdogan, forseta landsins, af dögum. Munu þeir hafa reynt í valdaránstilrauninni í fyrra þegar Erdogan var á Aegean hótelinu í Marmaris. Meðal hinna dæmdu eru háttsettir hermenn.

Þrettán aðrir voru einnig dæmdir í fangelsi en ekki til lífstíðar.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni eru þar á meðal hershöfðinginn Gokhan Sahin Sonmezates, sem sakaður er um að hafa skipulagt að ráða Erdogan af dögum, og sérsveitarmaðurinn Zekeriya Kuzu, sem varð frægur fyrir að fela sig í helli í fjóra daga eftir valdaránstilraunina.



Frá því að valdaránstilraunin var gerð hafa fleiri en 50 þúsund verið handteknir og var neyðarástandi lýst yfir. Aðgerðir yfirvalda í kjölfar tilraunarinnar hafa vakið upp áhyggjur um framtíð réttarríkisins í Tyrklandi.

Yfirvöld í Tyrklandi hafa sakað klerkinn Fethullah Gulen um að skipuleggja valdaránið en hann hefur ávalt neitað því. Gulen er í útlegð í Bandaríkjunum og hafa yfirvöld þar ekki viljað framselja hann á sannana. Hluti þeirra dæmdu viðurkenndu aðild sína að valdaránstilrauninni en neituðu því að hún tengdist Gulen á nokkurn hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×