Erlent

Bandaríkjamenn stefna aftur á tunglið

Kjartan Kjartansson skrifar
Buzz Aldrin spáserar um tunglið árið 1969. Menn hafa ekki komið þangað frá árinu 1972,
Buzz Aldrin spáserar um tunglið árið 1969. Menn hafa ekki komið þangað frá árinu 1972, Vísir/AFP
Varaforseti Bandaríkjanna segir mannaðar geimferðir verði forgangsmál geimáætlunar landsins á næstu árum. Hann vill að bandarískir geimfarar snúi aftur til tunglsins og heimsæki Mars í kjölfarið.

Menn hafa ekki stigið fæti á tunglið frá því að síðustu tunglfararnir yfirgáfu það árið 1972. Mannaðar geimferðir hafa verið bundnar við ferðir til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar sem gengur á braut um jörðu nokkur hundruð kílómetrum yfir yfirborði hennar síðustu áratugina.

Í grein sem hann skrifaði í Wall Street Journal í aðdraganda fundar Geimráðs Bandaríkjanna leggur Mike Pence, varaforseti, áherslu á tunglferðir. Geimráðið var lagt niður árið 1993 og er fundurinn í dag sá fyrsti eftir að það var endurvakið.

„Við ætlum að beina kröftum geimáætlunar Bandaríkjanna aftur að mönnuðum geimferðum og uppgötvunum. Það þýðir að senda fyrstu bandarísku geimfarana út fyrir lága braut um jörðu í fyrsta skipti frá árinu 1972. Það þýðir að koma Bandaríkjamönnum aftur fyrir á tunglinu sem er bráðnauðsynlegt og mikilvægt markmið. Frá bækistöðum á tunglinu verða Bandaríkin fyrsta þjóðin til að flytja menn til Mars,“ skrifar Pence.

Í umfjöllun Ars Technica er bent á að Pence víki hvergi að því hvernig Bandaríkjamenn ætla að koma mönnum til tunglsins. Hann virtist þó vísa til einkafyrirtækja þegar hann sagði að líta þyrfti út fyrir ganga ríkisvaldins.

Pence ávarpaði fund Geimráðsins í dag og hét því aftur að nota tunglið sem stoppistöð til að koma mönnum á endanum til Mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×