Erlent

Telja að brotist hafi verið inn í síma starfsmannastjóra Hvíta hússins

Kjartan Kjartansson skrifar
Kelly lét tæknimenn Hvíta hússins skoða símann þegar hann bilaði og vildi ekki uppfæra hugbúnað í sumar.
Kelly lét tæknimenn Hvíta hússins skoða símann þegar hann bilaði og vildi ekki uppfæra hugbúnað í sumar. Vísir/AFP
Öryggissérfræðingar Hvíta hússins telja að brotist hafi verið inn í farsíma Johns Kelly, starfsmannastjóra þess, mögulega í desember í fyrra. Það gæti þýtt að tölvuþrjótar eða erlend ríki hafi haft aðgang að gögnum úr honum í marga mánuði.

Merki um að einhver hefði komist inn í persónulegan síma Kelly fundust þegar hann fékk tæknideild Hvíta hússins til að fara yfir hann þegar hann taldi hann bilaðan í sumar, að því er segir í frétt Politico.

Kelly tók við sem starfsmannastjóri Hvíta hússins í sumar eftir að Reince Priebus lét af störfum. Áður hafði Kelly gegnt embætti heimavarnaráðherra.

Talsmaður Hvíta hússins segir að Kelly hafi ekki notað eigin síma oft eftir að hann tók sæti í ríkisstjórn Donalds Trump. Hann notaði símann sem um ræðir ekki lengur.

Ekki er vitað hvort að gögnum úr símanum hafi verið stolið eða hvenær brotist var inn í hann nákvæmlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×