Erlent

Yfir tuttugu látnir í Mið-Ameríku eftir hitabeltisstorminn Nate

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stormurinn hefur valdið miklum flóðum og aurskriðum.
Stormurinn hefur valdið miklum flóðum og aurskriðum. vísir/epa
Að minnsta kosti 22 eru látnir í Kosta Ríka, Níkaragva og Hondúras eftir að hitabeltisstormurinn Nate gekk þar yfir. Hefur neyðarástandi verið lýst yfir í löndunum þremur. Meira en tuttugu manns er saknað og því óttast að tala látinna eigi eftir að hækka.

Óveðrinu hafa fylgt miklar rigningar, aurskriður og flóð sem hafa hamlað samgöngum og gert björgunarstörf erfið. Í Kosta Ríki eru nærri 400 þúsund manns án vatns og þúsundir hafast við í neyðarskýlum. Hið minnsta átta fórust þar í landi, ellefu í Níkaragva og þrír í Hondúras en þar er nokkurra saknað.

Stormurinn stefnir í átt að Bandaríkjunum og búast sérfræðingar við því að hann sæki í sig veðrið á leiðinni og verði orðinn að fyrsta stigs fellibyl þegar hann nær landi. Íbúar frá Texas til Flórída búa sig nú undir óveðrið, en gangi spár veðurfræðinga eftir verður Nate þriðji stóri fellibylurinn sem skellur á svæðinu á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×