Erlent

PewDiePie aftur í klandri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Felix Kjellberg malar milljarða á Youtube.
Felix Kjellberg malar milljarða á Youtube. Vísir/Getty
Óheflað málfar tekjuhæstu Youtube-stjörnu heims og Íslandsvinarins PewDiePie hefur aftur komið honum í klandur.

Í beinni netútsendingu, þar sem fylgjast mátti með honum spila tölvuleik, mátti heyra Svíann, sem heitir réttu nafni Felix Kjellberg, kalla andstæðing sinn „negra“ og „helvítis fávita.“

Baðst hann strax afsökunar og sagðist ekki hafa meint neitt slæmt með orðanotkuninni. Atvikið má sjá með því að smella hér.

Framleiðandi tölvuleikjarins Firewatch, sem PewDiePie hefur spilað á Youtube-rás sinni, brást ókvæða við í gærkvöldi og hefur farið fram á að sá sænski fjarlægi öll myndbönd þar sem sést spila Firewatch.

Í átta tísta þræði á Twitter í gærkvöldi sagði framleiðandinn, Sean Vanaman, að hann væri kominn með upp í kok af því að „þetta barn“ væri að græða peninga á sköpun sinni og vísaði þar til PewDiePie.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem málfar Youtube-stjörnunnar kemur henni í vandræði. Hann hefur áður þurft að svara ásökunum um gyðingahatur og þá var hann settur í tímabundið bann á Youtube fyrir óheppilegt grín um Íslamska ríkið. Það keyrði þó um þverbak í febrúar þegar Disney sagði upp styrktarsamningi sínum við PewDiePie eftir að honum var gefið að sök að hygla nasismanum.

PewDiePie sagði að minnst einn brandarinn, þar sem hann greiddi tveimur indverskum mönnum fyrir að halda á skilti sem á stóð: „Drepum alla gyðinga“, hafi gengið of langt. Þá greiddi hann einnig manni fyrir að klæða sig eins og Jesús og taka sig upp segja að „Hitler hafi ekki gert neitt rangt“.

Um 57 milljón manns fylgja PewDiePie á Youtube og talið er að hann hafi haft um 1,6 milljarða króna í auglýsingatekjur á síðasta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×