Lífið

Fríða fékk neikvætt á fleiri en 56 þungunarprófum áður en hún sá loksins tvær línur

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Fríða Dís Guðmundsdóttir opnaði á dögunum málverkasýninguna Próf/Tests
Fríða Dís Guðmundsdóttir opnaði á dögunum málverkasýninguna Próf/Tests Þorsteinn Surmeli
Fríða Dís Guðmundsdóttir opnaði listasýninguna Próf/Tests á Ljósanótt um helgina en þetta er hennar fyrsta málverkasýning. Innblásturinn á bakvið sýninguna kemur frá hennar löngu bið eftir því að verða ófrísk. Fríða fékk neikvæða útkomu á þungunarprófum í 56 mánuði, áður en hún sá loksins línurnar tvær sem hún hafði beðið svo lengi eftir. Fríða Dís og Þorsteinn Surmeli eiginmaður hennar eignuðust son sinn Dag fyrir þremur mánuðum en hún varð ófrísk af honum í sinni sjöttu glasafrjóvgun.

„Við eigum hvort annað“

Fríða Dís var tvítug þegar þau kynntust og þau byrjuðu að reyna að eignast barn í febrúar árið 2012 eftir að hafa verið saman í fimm ár. Fríða Dís var greind með legslímuflakk eða endómetríósu í apríl árið 2012 en þá var hún 25 ára gömul. „Ég fékk greiningu eftir að hafa gengið á milli lækna vegna slæmra magaverkja,“ segir Fríða Dís. Glasafrjóvgun hefur reynst vel fyrir margar konur með legslímhimnuflakk en ferlið reyndist Fríðu Dís langt og erfitt.

„Ég hef ekki tölu á því hvað ég hef notað mörg óléttupróf, suma mánuði tók ég fleiri en eitt. En það tók okkur hjónin 57 mánuði að verða barnshafandi.“

Fríðu Dís leið andlega vel á meðgöngunni en fór snemma að vera slæm í grindinni og gat lítið sem ekkert athafnað sig á síðari hluta meðgöngunnar. „Það tók á en var fljótt að gleymast þegar við fengum drenginn í hendurnar. Dagur Þorsteinsson Surmeli kom í heiminn 2. júní og er nú orðinn þriggja mánaða. Hann er algjör draumur og dafnar mjög vel. Þetta er best í heimi.“ segir Fríða Dís.

Fríða Dís segist ekkert alltaf hafa verið bjartsýn á ná að verða ófrísk en stuðningur eiginmannsins hafi verið ómetanlegur.

„Að greinast með endómetríósu var svolítill skellur, þá fyrst var þetta orðið að vandamáli. Ég drakk í mig allan fróðleik um endómetríósu sem ég komst yfir. Að fá vitneskju um að 40 prósent þeirra kvenna sem greinast kljást við ófrjósemi var ekki til að bæta gráu ofan á svart. Maðurinn minn stappaði þó alltaf í mig stálinu þegar mér leið verst og reyndist mér alveg svakalega vel. Eftir enn eitt neikvæða prófið  ætlaði svartnættið mig lifandi að éta , þá segir hann við mig „Fríða mín, við eigum hvort annað“, það er sennilega það fallegasta sem nokkur hefur sagt við mig.Fljótt að gleymast

„Við byrjuðum í glasafrjóvgunarferli hjá Art Medica í janúar 2015 og kláruðum ferlið okkar í IVF í október 2016 með jákvæðu prófi. Við fórum alls í tvær meðferðir og settir voru upp sex fósturvísar samtals, sá síðasti varð að barni. Við maðurinn minn mættum alltaf full af bjartsýni til bæði Art Medica og IVF. Starfsfólkið var yndislegt og hjálplegt við okkur og við berum þeim vel söguna, sér í lagi IVF. Lyfjameðferðin fór að taka verulega á þegar fimmti fósturvísirinn var settur upp og ég var komin í mikið hormónaójafnvægi. Eftir að fyrri meðferðin kláraðist, þá eftir fimm misheppnaðar tilraunir, ákváðum við ásamt Ingunni Jónsdóttur hjá IVF að ég færi í blæðingarstopp fram að næstu meðferð. Það fól í sér að ég var slitlaust á pillunni í nokkra mánuði til að reyna að minnka bólgurnar. Það er stórkostleg þversögn í því að vera á pillunni að reyna að eignast barn en gaf góða raun fyrir okkur.“

Fríða Dís segir að það sé mikill ókostur að meðferðirnar séu ekki meira niðurgreiddar hér á landi.

„Eftir að við hófum nýja meðferð á haustmánuðum 2016 hjá IVF fengum við jákvætt próf eftir fyrstu tilraun þar, þá sjötti fósturvísirinn sem fer upp. Við tökum prófið snemma morguns 5. október. Það var stórkostleg lífsreynsla, við erum ennþá að jafna okkur á því. Það er ótrúlega frelsandi að fá sinn heitasta draum uppfylltan.“

Fríða Dís á sýningu sinniÞorsteinn Surmeli

Málverkunum fylgir sorg og von

Próf/Tests listasýning Fríðu Dísar er á Listasafni Reykjanesbæjar og stendur opin til 15.október næstkomandi.

„Sýningin er í grunnin mín leið til að koma frá mér erfiðum tilfinningum. En þegar á botninn er hvolft snýst sýningin um þá sem geta samsamað sig voninni og sorginni sem fylgir málverkunum. Á sýningunni eru 57 olíumálverk, öll í sömu stærð og í tveimur litum, hvítum og rauðum. Fyrirmynd málverkanna eru 57 þungunarpróf. 56 verkanna eru með einu rauðu lóðréttu striki á hvítmáluðum striga sem munu liggja líkt og rauður þráður í gegnum sýninguna en 57. verkið stingur í stúf enda sýnir það tvö rauð, lóðrétt strik.  Hvert málverk táknar einn mánuð í því 57 mánaða ferli sem það tók okkur hjónin að búa til barn.“

Málverk Fríðu Dísar bera hvert heiti þess mánaðar og árs sem það stendur fyrir, allt frá febrúar 2012 til október 2016 þegar hún tók síðasta prófið.Átti ekki von á að verkin yrðu svona mörg

„Verkin eru þannig mjög persónuleg en ekki síður táknræn. Persónuleg vegna þess að með verkunum er ég, og við hjónin, að opna fyrir hluta lífs okkar sem við höfum hingað til haldið út af fyrir okkur og táknræn þar sem hvert strik á sýningunni stendur fyrir eina tilraun sem hefur mistekist. Og hvert strik táknar jafnframt von og þrá okkar hjóna til að eignast barn.“

Fríða Dís starfar sem tónlistarmaður og lærir Jazzsöng í tónlistarskóla F.Í.H en hún var í BA-námi í listfræði þegar hugmyndin af sýningunni kviknaði.

„Þegar ég fékk hugmyndina að málverkasýningunni Próf/Tests hafði glugginn á þungunarprófinu birst mér með einu striki sem síendurtekið stef í að verða eitt og hálft ár. Ég var í listfræði í HÍ á þessum tíma og mikið að vinna með myndlestur, mér fannst glugginn á þungunarprófinu vera eins og málverk. Þegar hugmyndin að sýningunni kviknaði var því ekki áætlað að verkin yrðu jafn mörg og raunin varð. Ég er þó þakklát fyrir að verkin urðu 57 því á tímabili var ég ekki lengur viss hvort að sýningin yrði að veruleika yfir höfuð. Sjálf var ég heldur ekki viss hvort ég hefði taugar í að opna mig á þennan hátt fyrir almenningi en hugmyndin að sýningunni var þó sífellt að gera vart við sig í huga mér.“Umræðan um barnleysi er viðkvæm

Hugmyndin að sýningunni hefur verið lengi í bígerð en Fríðu Dís fannst hún ekki geta hafist handa við sýninguna fyrr en lokaverkið með tveimur strikunum, varð að veruleika.

„Það var ekki fyrr en ég sá verkið, Henry Ford Hospital (1932), eftir nöfnu mína Fridu Kahlo á sýningu hennar og Diego Rivera, Art in Fusion, á Musée de l'Orangerie í París á haustmánuðum 2013 að ég vissi að ég ætlaði að láta verða af sýningunni, það er að segja ef ég yrði svo lánsöm að geta lokað henni með verki af tveimur strikum. Verk Kahlo sýnir upplifun hennar á fósturmissi og snart mig svo djúpt að hún skildi mig eftir í tárum. Á þessari stundu vissi ég að sýningin Próf/Tests væri stærri en ótti minn við afhjúpun og gagnrýni. Ég ber þó ekki ein þungann af afhjúpuninni og því var næsta skref að segja eiginmanni mínum frá hugmyndinni. Ég hefði ekki þurft að mikla það fyrir mér því hann tók vægast sagt vel í hugmyndina, eins skapandi og stórkostleg mannvera hann er, og hvatti mig heilshugar til að framkvæma hana.“

Fríða Dís segir að viðtökurnar hafi verið verið hreint út sagt ótrúlegar síðan sýningin opnaði á fimmtudag. Margir hafa gefið sig á tal við mig og sent mér skilaboð og deilt með mér sinni reynslu, ég er mjög þakklát fyrir það. Umræðu sem fylgir barnleysi er viðkvæm en við verðum að finna leiðir til að tala saman.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.