Erlent

Rúmur helmingur Breta segist ekki trúaður

Kjartan Kjartansson skrifar
Sérstaklega hefur fækkað í söfnuði ensku biskupakirkjunnar. Myndin er frá Kantaraborg þar sem erkibiskup kirkjunnar situr.
Sérstaklega hefur fækkað í söfnuði ensku biskupakirkjunnar. Myndin er frá Kantaraborg þar sem erkibiskup kirkjunnar situr. Vísir/AFP
Meirihluti svarenda í könnun segist ekki hafa neina trú sem gerð var á Bretlandi. Þetta er í fyrsta skipti sem meirihluti segist ekki trúaður. Hlutfall trúlausra er enn hærra á meðal yngra fólks.

Félagsfræðirannsóknamiðstöð Bretlands gerði könnunin í fyrra og náði hún til tæplega þrjú þúsund fullorðinna Breta. Af þeim sögðust 53% vera „án trúarbragða“.

Í aldurshópnum 18-25 ára sagðist 71% ekki tilheyra neinni trú, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Aftur á móti sögðust 75% fólks eldri en 75 ára trúuð.

Trúhneigð Breta hefur farið hríðminnkandi undanfarna áratugi. Þegar Félagsfræðirannsóknamiðstöðina gerði fyrstu könnunina af þessu tagi árið 1983 sagðist 31% ekki hafa neina trú.

Könnunin nú leiðir ennfremur í ljós að fjórir af hverjum tíu sem fæddust inn í trúrækna fjölskyldu telja sig ekki trúaða lengur.

Mest hefur fækkunin verið í röðum ensku biskupakirkjunnar. Aðeins 15% sögðust tilheyra kirkjunni í fyrra, tvöfalt færri en árið 2000.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×