Erlent

Hótun um Íslandslendingu róaði flugdólga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Dólgunum þótti hræðileg tilhugsun að þurfa að lenda á Íslandi.
Dólgunum þótti hræðileg tilhugsun að þurfa að lenda á Íslandi. Vísir/Valli
Bresk kona hefur verið dæmd í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa látið ófriðlega í flugvél á leið frá Jamaíku til Birmingham fyrr í sumar. Konan, Kirsty Owen, lenti í háværum útistöðum við sessunaut sinn eftir að upp kom ágreiningur um hvort þeirra ætti drykk sem flugþjónn færði þeim. Það eina sem gat róað þær var tilhugsunin um að lenda í Keflavík.

Bæði Owen og konan sem sat við hlið hennar eru sagðar hafa verið í annarlegu ástandi og þurfti þrjá lögreglumenn, sem sjálfir voru að koma heim úr fríi, til að halda aftur af þeim eftir misheppnaðar tilraunir áhafnarmeðlima.

Þær voru að lokum færðar aftast í vélina þar sem þær voru bundnar niður. Það róaði þó ekki konurnar sem héldu áfram að ausa fýkurðum yfir hvor aðra.

Saksóknari í máli Owen segir í samtali við Daily Mail að það hafi verið þá sem flugstjóri vélarinnar blandaði sér í málið. Hann hafi tilkynnt öllum í hátalarakerfi vélarinnar að hann myndi lenda vélinni á Íslandi ef konurnar myndu ekki taka sig saman í andlitinu.

Það hafi virkað og konurnar verið rólegar fram að lendingu í Birmingham þar sem lögreglumenn tóku þær fastar.

Kirsty Owen hefur beðist innilegrar afsökunar á hegðun sinni og segist skammast sín niður í tær. Það hafi þó farið í taugarnar á henni að hin konan hafi einungis fengið áminningu en hún dæmd til fangelsisvistar sem fyrr segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×