Erlent

Svíar flytja sjö opinberar stofnanir út á land

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sakaði fyrri ríkisstjórn um "Stokkhólmsþráhyggju“.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, sakaði fyrri ríkisstjórn um "Stokkhólmsþráhyggju“. Vísir/AFP
Sænska ríkisstjórnin greindi í morgun frá því að til stæði að flytja sjö opinberar stofnanir, að hluta eða að fullu, frá Stokkhómi og til annarra borga í landinu. Tillögurnar hafa áhrif á milli 500 og 550 opinber störf.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Ardalan Shekarabi, ráðherra mála opinberrar stjórnsýslu, kynntu tillögurnar í Katrineholm, suðvestur af Stokkhólmi í morgun.

Löfven segir þetta mesta átakið þegar kemur að afnámi miðstýringar í landinu í tíu ár og sakaði hann fyrri ríkisstjórn hinna borgaralegu flokka um það sem hann kallaði „Stokkhólmsþráhyggju“.

SVT segir frá því að flutningnum eigi að vera lokið í nóvember 2018.

Flest störf munu flytjast til Katrineholm þar sem 120 af 300 störfum Geislavarna sænska ríkisins verða flutt frá Stokkhómi og til borgarinnar.

Aðrar stofnanir sem verða fyrir breytingum eru meðal annars Norðurskautsrannsóknarstofnun sem flyst til Luleå og Hagvaxtarstofnunin sem flyst til Östersund. Með tillögunni sem kynnt var í morgun munu opinber störf sömuleiðis flytjast til Gautaborgar, Växjö, Gävle og Visby.

Fyrr á kjörtímabilinu hafði sænska ríkisstjórnin flutt þrjár stofnanir frá Stokkhólmi og til Kalmar, Karlstad og Skellefteå.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×