Erlent

Byggja frumgerðir af veggnum umdeilda

Samúel Karl Ólason skrifar
Margskonar girðingar eru nú þegar á landamærum ríkjanna.
Margskonar girðingar eru nú þegar á landamærum ríkjanna. Vísir/AFP
Fjögur bandarísk verktakafyrirtæki hafa verið valin til að byggja frumgerð af mögulegum vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Um er að ræða níu metra langa og allt að níu metra háa veggi sem byggja á á næstu vikum. Embættismenn munu svo verja tveimur mánuðum í að kanna hvort þeir komist í gegnum þessa steyptu veggi með smáum verkfærum.

Einnig verður útlit þeirra kannað og hve auðvelt verði að klifra yfir þá.

Veggurinn umræddi er eitt af kosningaloforðum Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem einnig hélt því fram að hann myndi þvinga yfirvöld í Mexíkó til að borga fyrir gerð veggjarins. Þar segja menn þó að það komi alls ekki til greina. Nú hefur forsetinn sagt að Bandaríkin muni punga út fyrir veggnum og að Mexíkó muni greiða fyrir það síðar.

Jafnvel kæmi til greina að þekja vegginn með sólarrafhlöðum og borga hann upp með framleiðslu rafmagns.

Samkvæmt frétt BBC sendu rúmlega 200 fyrirtæki inn tillögur af veggjum sem þau gætu reist á landamærunum. Þau fjögur fyrirtæki sem voru valin til að smíða frumgerðir munu fá hálfa milljón dala hvert til verksins. Það samsvarar um 52 milljónum króna.



Til stendur að tilkynna samninga um fjórar aðrar frumgerðir á næstu vikum. Þær verða þó ekki úr steypu.

Starfsmenn Hvíta hússins hafa haldið því fram að framkvæmdin gæti í heild kostað á milli átta til tólf milljarða dala. Sérfræðingar Heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna áætla hins vegar að kostnaðurinn verði allt að 21 milljarður dala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×