Erlent

Menntaðir Evrópubúar flýja Bretland

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Því hærri tekjur sem einstaklingur er með því meiri líkur eru á að hann flytji samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.
Því hærri tekjur sem einstaklingur er með því meiri líkur eru á að hann flytji samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Vísir/EPA
Tæplega milljón starfsmenn með sérfræðikunnáttu sem starfa í Bretlandi en eru frá einhverju af Evrópusambandsríkjunum sjá ekki fyrir sér framtíð í Bretlandi. Þetta eru niðurstöður úr viðamikilli könnun KPMG sem gerð var meðal slíkra starfsmanna. The Guardian greinir frá. 

Könnunin sýnir jafnframt að rúmlega helmingur einstaklinga með doktorsgráðu og tæplega helmingur þeirra sem eru með menntun á meistaragráðustigi hyggjast flytja eða eru alvarlega að íhuga það.

Um 3,1% af starfsmönnum á breskum vinnumarkaði, eða um milljón manns, sjá því ekki fyrir sér framtíð í landinu. Helsta ástæðan sem þessi hópur gaf fyrir því var að þau litu svo á að þau væru ekki lengur velkomin og ekki metin að verðleikum. Þá taldi stór hluti þessa hóps Bretland vera orðið óaðlaðandi land. 

Því hærri tekjur sem einstaklingur er með því meiri líkur eru á að hann flytji samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.

Sjálfstæðu, kröfuhörðu, menntuðu og ungu starfsmennirnir líklegastir til flytja frá Bretlandi

Niðurstöður könnunarinnar staðfestir því yfirvofandi spekileka og gefur til kynna að mikil sérfræðikunnátta muni flytjast úr landi. Karen Biggs, sem hefur stjórnað könnuninni hjá KPMG, segir að þetta muni koma einna verst niður á störfum sem tengjast upplýsingatækni en um 53% starfsmanna á því sviði segjast vera annað hvort að íhuga að flytja eða vera búnir að ákveða að gera það.

Karen Biggs segir jafnframt að stjórnendur fyrirtækja þurfi að leggja sig alla fram við að halda í starfsfólk frá Evrópusambandsríkjunum og býst við því að samkeppnin um starfsfólk muni koma til með að aukast mikið á næstu árum.

KPMG segir að þeir sem líklegastir eru til að flytja frá Bretlandi séu sjálfstæðir, kröfuharðir, menntaðir og ungir starfsmenn. Á þetta því að koma illa niður á fyrirtækjum sem treysta á ungt menntað fólk.

Fyrir rúmlega viku var sagt frá því að mun færri stúdentar frá Evrópusambandsríkjunum sóttu um nám í Bretlandi en vonast var til. Lýstu margir skólastjórnendur yfir áhyggjum sínum með þróun mála í kjölfarið.

KPMG könnunin verður birt í heild sinni í vikunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×