Erlent

Þrýst á leyniþjónustuna um að finna gögn gegn Írönum

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandarískt leyniþjónustufólk er sagt brennt af reynslunni frá því í aðdraganda Íraksstríðsins síðara.
Bandarískt leyniþjónustufólk er sagt brennt af reynslunni frá því í aðdraganda Íraksstríðsins síðara. Vísir/EPA
Fulltrúar Hvíta hússins eru nú sagðir þrýsta á bandarísku leyniþjónustuna um að finna tilefni til að saka Írana um að brjóta gegn samkomulagi um kjarnorkumál. Trump forseti er sagður vilja rifta því nú þegar.

Breska blaðið The Guardian hefur eftir fyrrverandi embættismönnum og leyniþjónustugreinendum að bandarískir leyniþjónustumenn þráist nú við að finna átyllu sem gæti réttlætt að bandarísk stjórnvöld rifti samkomulaginu sem var gert árið 2015 í forsetatíð Baracks Obama þrátt fyrir þrýsting frá Hvíta húsinu.

Samkvæmt samkomulaginu sem stjórnvöld í Teheran, Bandaríkjunum og fimm öðrum ríkjum skrifuðu undir hafa Íranar dregið verulega úr kjarnorkuáætlun sinni. Í staðinn hefur verið létt á refsiaðgerðum gegn landinu.

Þær stofnanir sem fylgjast með því að Íranar fari eftir skilmálum samkomulagsins hafa ekki fundið neinar vísbendingar um að þeir hafi svikist undan.

Bandarísk stjórnvöld eru einnig sögð hafa þrýst á Alþjóðakjarnorkustofnunina um að krefjast þess að fá að skoða herstöðvar í Íran. Írönsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að eftirlitsmönnum verði ekki veittur aðgangur að þeim.

Tillerson utanríkisráðherra (t.h.) er sagður hafa talið Trump hughvarf um að rifta samkomulaginu við stjórnvöld í Teheran.Vísir/AFP
Grefur undan gagnsemi leyniþjónustunnar

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að hann geri ráð fyrir því að lýsa því yfir að Íranar hafi brotið gegn samkomulaginu um miðjan október þegar hann þarf næst að gefa Bandaríkjaþingi skýrslu um stöðu þess.

Í viðtali við Wall Street Journal í júlí sagði Trump að ef ákvörðunin væri upp á hann einn komin þá hefði hann þá þegar verið búinn að lýsa Írana brotlega við skilmála samkomulagsins. Gaf hann í skyn að það hefði verið Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem hafði fengið hann til að staðfesta að Íranar heiðruðu samninginn síðast þegar hann þurfti að gefa þinginu skýrslu.

„Þetta snýr leyniþjónustustarfinu á haus. Ef það er dregið úr vægi leyniþjónustunnar vegna þess að hún er gerð pólitísk á þann hátt sem forsetinn virðist vilja gera hér þá grefur það undan gagnsemi leyniþjónustunnar á öllum sviðum,“ sagði David Cohen, fyrrverandi aðstoðarforstjóri leyniþjónustunnar CIA við CNN.

Minnir á aðdraganda innrásarinnar í Írak

Framferði Trump-stjórnarinnar nú er sagt minni um margt á tilburði ríkisstjórnar George W. Bush í aðdraganda innrásarinnar í Írak árið 2003. Þá beittu bandarísk stjórnvöld fölskum upplýsingum til að réttlæta hernaðaríhlutun til að steypa Saddam Hussein af stóli.

Bandarískir leyniþjónustumenn eru sagðir minnugir þess og vilji flest vinna til þess að sagan endurtaki sig ekki.

„Ég hef heyrt sögur frá nokkrum sem tilheyra leyniþjónustusamfélaginu um þeir upplifi sig undir þrýstingi. Þeir segja mér að þeim sé misboðið. Þeir fá deja vu-tilfinningu. Mönnum finnst eins og þeir hafi séð þessa bíómynd áður,“ segir Ned Price, fyrrverandi greinandi hjá CIA sem var einnig talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna í tíð Baracks Obama, fyrrverandi forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×