Erlent

Trump eykur aftur hervæðingu lögreglunnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Ferguson árið 2014.
Lögregluþjónar að störfum í Ferguson árið 2014. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, mun í dag kynna áætlun um að fella niður takmarkanir Barack Obama, forvera Trump, á því hve mikið af hergögnum lögregluembætti í Bandaríkjunum geta fengið. Um er að ræða herbúnað sem herafli ríkisins notar ekki eins og brynvarða bíla og skriðdreka, sprengjuvörpur og ýmislegt fleira.

Barack Obama takmarkaði hergagnagjafir til lögreglunnar eftir umdeilt atvik í Ferguson í Missouri árið 2014. Þar mætti mjög svo þungvopnuð lögregla mótmælendum á götum borgarinnar.

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, ræddi málið á fundi samtaka lögregluþjóna í Nashville í Tennessee í dag og sagði lögregluna vera að berjast á mörgum vígstöðvum. Ofbeldisglæpum og glæpagengjum hefði fjölgað, mikill fíkniefnavandi stæði yfir, hryðjuverkaógn og á sama tíma væru hefðbundin fjölskyldu- og menningargildi væru á undanhaldi.

Sessions sagði það leiða til þess að virðing fyrir lögum og reglu hefði minnkað.

„Forsetatilskipunin sem forsetinn mun skrifa undir í dag mun tryggja að þið fáið búnað sem bjarga mun lífum og ganga úr skugga um að þið getið unnið vinnuna ykkar. Í senn munið þið senda sterk skilaboð um að við munum ekki leyfa glæpastarfsemi, ofbeldi og lögleysu að verða okkur eðlislæg,“ sagði Sessions samkvæmt frétt CNN.



Mannréttindasamtök í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt stefnubreytinguna harðlega og segja takmarkanir Obama hafa hjálpað til við að auka traust á lögregluna í íbúðarhverfum litaðra.

John Oliver fjallaði eftirminnilega um hervæðingu lögreglunnar árið 2014.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×