Skoðun

Gerum samfélagið fjölskylduvænna

Elín Björg Jónsdóttir skrifar
Það gengur oft erfiðlega að finna tímana í sólarhringnum til að eyða með fjölskyldu og vinum. Íslendingar hafa löngum talið það mannkosti að vinna mikið og lengi, sem bitnar óhjákvæmilega á gæðastundum með fjölskyldunni. Þótt vinnan sé mikilvæg er nauðsynlegt að finna jafnvægi þarna á milli og gera samfélagið fjölskylduvænna.

BSRB hefur lagt mikla áherslu á þróun í þessa átt á undanförnum árum. Grundvöllurinn fyrir því að byggja upp fjölskylduvænna samfélag er að bæði kynin hafi jöfn tækifæri. Foreldrar eiga að hafa sömu möguleika og skyldur hvort sem er á vinnumarkaði eða heima fyrir.

Mikilvægur þáttur í þessu er að bæta fæðingarorlofið. Íslenska fæðingarorlofskerfið var byggt upp af metnaði en hefur síðan fengið að drabbast niður. Fæðingar­orlofskerfið á að virka hvetjandi á báða foreldra til að eyða tíma með nýfæddum börnum sínum á þessum mikilvæga tíma í þroskaferli þeirra. Einnig er mikilvægt að tryggja börnum dagvistun strax þegar orlofi lýkur.

Langur vinnudagur gerir mörgum erfitt fyrir að samþætta fjölskyldulífið og vinnuna. BSRB hefur mótað þá stefnu að stytta vinnuvikuna úr 40 tímum í 36 án þess að laun skerðist. Erlendar rannsóknir benda til þess að hægt sé að stytta vinnutímann án þess að það bitni á afköstum. Bæði Reykjavíkurborg og ríkið standa nú fyrir tilraunaverkefnum með BSRB til að kanna hvernig þetta getur gengið fyrir sig hér á landi.

En fleira þarf til eigi íslenskt samfélag að verða fjölskylduvænna. Bæta þarf samspil atvinnulífsins, skóla og heimilanna með það að markmiði að draga úr árekstrum. Auka þarf réttindi til að vera frá vinnu til að sinna veikum börnum og bjóða upp á sveigjanleg starfslok.

Það er verkefni okkar til langs tíma að gera samfélagið fjölskylduvænna. Þegar lagt er af stað í langferð getur takmarkið virst órafjarri. Þess vegna þarf að vinna jafnt og þétt að þessu markmiði, eitt skref í einu í átt að takmarkinu.

Höfundur er formaður BSRB.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×