Skoðun

Upprætum ofbeldi gegn börnum

Heiða Björg Hilmisdóttir skrifar
Sífellt kemur betur og betur í ljós, hversu hræðilega algengt það er að börn séu beitt ofbeldi í okkar annars friðsæla samfélagi. Samkvæmt rannsóknum hafa 10-13% allra barna í 10. bekk grunnskóla orðið fyrir kynferðisofbeldi og í u.þ.b. 10% allra heimilisofbeldismála á höfuðborgarsvæðinu beinist ofbeldið gegn börnum. Eru þá ótalin þau óbeinu skaðlegu áhrif sem börn verða fyrir vegna heimilisofbeldis, en í um 70% tilfella eru börn á þeim heimilum, þar sem ofbeldi er beitt.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að oftar en ekki þurfa börn sem beitt eru ofbeldi að bera harm sinn í hljóði. Allt of sjaldan er hlustað á neyðarköll barnanna og gripið inn í með viðeigandi hætti. Þannig hefur komið í ljós að barn er oft búið að reyna að segja fullorðnum frá ofbeldi sem það verður fyrir 7 – 10 sinnum áður en einhver hlustar.

Samfélag sem þannig hlúir að börnum sínum getur varla talist siðað og það hlýtur að vera forgangsmál stjórnmálanna og okkar allra að bregðast við.

Á sameiginlegum fundi ofbeldisvarnarnefndar og borgarstjórnar Reykjavíkur, var nýverið samþykkt tillaga nefndarinnar um að innleiða verkefnið „Opinskátt um ofbeldi“ í öllum grunnskólum, leikskólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar. Markmið verkefnisins er að tryggja að barn þurfi bara að segja einu sinni frá og að starfsmenn borgarinnar sem vinna með börnum séu þjálfaðir í að sjá merki um að barn sé beitt ofbeldi. Einnig er verkefninu ætlað að auka þekkingu barna á ofbeldi og gera þau fær um að ræða um ofbeldi opinskátt og taka afstöðu gegn því. Verkefnið „Opinskátt um ofbeldi“ hefur á liðnum árum verið þróað sem tilraunaverkefni á nokkrum starfsstöðvum borgarinnar með góðum árangri. Ljóst er að starfsfólkið sem tók þátt í verkefninu er betur í stakk búið til að takast á við það ef barn upplýsir að það hafi orðið fyrir ofbeldi og það er einnig betur í stakk búið til að greina birtingarmyndir þess. Umræðan er opnari og verkferlar skýrari.

Með samþykkt borgarstjórnar um að innleiða verkefnið „Opinskátt um ofbeldi“ í öllum grunnskólum, leikskólum og frístundamiðstöðvum Reykjavíkurborgar, er því stigið afar mikilvægt skref í að vernda börn fyrir ofbeldi. Eitt af mörgum í átt til betra samfélags án ofbeldis.

 

Höfundur er borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar og formaður Ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur.




Skoðun

Sjá meira


×