Skoðun

Að breyta loðnu í lax

Yngvi Óttarsson skrifar
Nýskipaður formaður Landssambands fiskeldisstöðva, Einar K. Guðfinnsson, skrifar í Fréttablaðið 10. apríl um fiskeldi um víða veröld og reynir enn einu sinni að beina athyglinni frá hinni stórkostlegu hættu af laxeldi með ógelta norska eldisstofna í opnum sjókvíum við Ísland: Erfðamengun, lúsafaraldrar, sjúkdómar og mengun hafsins með gífurlegum úrgangi svo eitthvað sé nefnt. Ráðleggingar almannatenglanna eru greinilega, að allri gagnrýni skuli svara og afvegaleiða með óviðkomandi smjörklípum. Alls ekki skuli ræða um þau spjót sem á þessari umdeildu starfssemi standa. Ræða frekar eitthvað annað.

Þessi nýjasta smjörklípa stenst enga skoðun. Nýi formaðurinn skrifar að fiskeldi sé framtíðin þar sem fiskeldi leysi fæðuskort mannkynsins. Eflaust er hægt að finna dæmi um umhverfisvænt fiskeldi einhvers staðar í heiminum, en það á ekki við um laxeldi í opnum sjókvíum, hvorki við Íslandsstrendur né annars staðar.

Samkvæmt upplýsingunum frá eldisfyrirtækjunum sjálfum er fóðurhlutfallið 1,2. Þannig þarf 1,2 kg af þurrfóðri til að ala 1 kg af lifandi laxi. Í þurrfóðrinu er 35% fiskimjöl og 28% lýsi (skýrsla Verkís fyrir Arnarlax, desember 2016, bls. 17). Við bræðslu loðnu er nýting í fiskimjöl um 18% og í lýsi um 7%. Þetta þýðir að fyrir hver 1,2 kg af þurrfóðri sem fleygt er fyrir laxinn þarf að bræða 4,8 kg af loðnu til að ná í lýsið og mjölið sem að lokum verður að 1 kg af eldislaxi. Augljóslega mettar það ekki fleiri munna að umbreyta uppsjávarfiski þannig í eldislax. Sú framleiðsla er í rauninni stórkostleg matarsóun.

Hinum norsku eigendum sjókvíaeldisfyrirtækjanna og málpípum þeirra væri nær að svara því hvernig koma megi í veg fyrir náttúruspjöll með raunhæfum hætti svo sem með því að nota geldfisk, lokuð kerfi eða landeldi. Þær sömu lausnir og norsku eigendurnir eru að vinna í heima fyrir. Aðeins varanlegar lausnir sem valda ekki tjóni á náttúrunni geta skapað sátt. Stóriðja með tilheyrandi mengun og umhverfisspjöllum er liðin tíð.

Aðeins varanlegar lausnir sem valda ekki tjóni á náttúrunni geta skapað sátt. Stóriðja með tilheyrandi mengun og umhverfisspjöllum er liðin tíð.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×