Viðskipti innlent

Fjárfesting vogunarsjóða varin að 40 prósent hluta gegn krónunni

Hörður Ægisson skrifar
Vogunarsjóðir og Goldman Sachs borguðu um 49 milljarða fyrir 29 prósenta hlut í Arion banka.
Vogunarsjóðir og Goldman Sachs borguðu um 49 milljarða fyrir 29 prósenta hlut í Arion banka. vísir/eyþór
Fjárfesting vogunarsjóðanna og bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs á 29,2 prósenta hlut í Arion banka fyrir um 49 milljarða er samtals varin að ríflega 40 prósenta hluta gagnvart gengisflökti krónunnar, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Mótaðili sjóðanna í þeim gjaldmiðlaskiptasamningum, eða sá sem er skuldbundinn til að afhenda þeim gjaldeyri í skiptum fyrir krónur, er Íslandsbanki.

Sjóðirnir eru misjafnlega mikið varðir fyrir gengisþróun krónunnar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru vogunarsjóðirnir Taconic Capital og Attestor Capital, sem keyptu hvor um sig 9,99 prósenta hlut, með samninga um gengisvarnir sem nema í kringum 40 prósentum af fjárfestingu þeirra. Bandaríski vogunarsjóðurinn Och-Ziff Capital, sem á 6,6 prósenta hlut í Arion banka, lagði hins vegar á það mikla áherslu að fjárfesting sjóðsins í bankanum yrði að stærstum hluta varin gagnvart gengi krónunnar. Ekki hafa fengist staðfestar upplýsingar um gengisvarnir Goldman Sachs en fjárfestingarbankinn keypti 2,6 prósenta hlut í bankanum fyrir um 4,3 milljarða. Heildarfjárhæð þeirra gjaldmiðlaskiptasamninga sem fjárfestahópurinn stóð að í tengslum við kaupin í Arion banka, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, er því á bilinu 20 til 25 milljarðar.

Vill fjárfesta í krónunni

Þegar gengið var frá kaupsamkomulagi við Kaupþing í byrjun febrúar – fjárfestarnir eru jafnframt stærstu hluthafar Kaupþings – var það meðal annars háð fyrirvörum um að Seðlabanki Íslands myndi veita undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál vegna útgáfu slíkra afleiðusamninga í tengslum við fjárfestingu sjóðanna í Arion banka. Um tveimur vikum síðar tilkynnti Seðlabankinn að hann teldi nú forsendur fyrir hendi til að veita tilteknar undanþágur vegna afleiðuviðskipta til varanlegra áhættuvarna.

Í tilkynningunni sagði jafnframt að heimild fyrir útgáfu afleiðusamninga væri háð ýmsum skilyrðum, svo sem tímalengd og hlutfalli varna, til að „tryggja að afleiðuviðskiptin verði raunverulega gerð í þeim tilgangi að verjast gjaldeyrisójafnvægi yfir lengri tíma, en ekki til stöðutöku með eða á móti íslensku krónunni.“ Engar undanþágur eru því veittar vegna afleiðuviðskipta til spákaupmennsku.

Spurður hvort sjóðurinn væri ekki með varnir gegn sveiflum í gengi krónunnar, sem sögulega séð hafa oft verið miklar, sagði Frank Brosens, stofnandi og eigandi Taconic Capital, í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu 20. mars síðastliðinn að hann væri þeirrar skoðunar, með hliðsjón af styrkleika íslenska hagkerfisins, að krónan myndi haldast sterk og sjóðurinn vilji því fjárfesta í henni. „Við viljum hins vegar ekki vera algjörlega varnarlausir gagnvart gengissveiflum og því höfum við gert skiptasamninga til að verja fjárfestingu okkar í bankanum að hluta fyrir gengisþróun krónunnar,“ sagði Brosens.

Ekki með atkvæðisrétt

Samhliða því að erlendu fjárfestarnir keyptu tæplega 30 prósent í Arion banka var jafnframt um það samið að sömu sjóðir gætu nýtt sér kauprétt að 22 prósenta hlut til viðbótar, sem verður á hærra verði en þeir keyptu á í síðasta mánuði, áður en fyrirhugað hlutafjárútboð og skráning á þeim hlut sem eftir stendur í eigu Kaupþings verður haldið. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er stefnt að almennu útboði næstkomandi haust en nýti sjóðirnir sér kaupréttinn, sem fastlega er gert ráð fyrir, mun Kaupþing þurfa að selja um 36 prósenta hlut í gegnum hlutafjárútboð.

Þrátt fyrir að vogunarsjóðirnir fari ekki núna með virkan eignarhlut í Arion banka, en hann miðast við meira en tíu prósenta hlut í fjármálafyrirtæki, þá hafa fulltrúar þeirra gefið út að þeir hafi slík áform og muni tilkynna Fjármálaeftirlitinu (FME) um þá fyrirætlan svo stofnunin geti lagt mat á hæfi þeirra til að fara með virkan hlut í bankanum. Þá hefur FME þegar upplýst að hafinn sé undirbúningur að slíku hæfismati og meðal annars sé búið að koma á tengslum við fjármálaeftirlit annarra ríkja þar sem sumir sjóðanna hafa starfsleyfi eða hafa verið metnir hæfir sem virkir eigendur. Á meðan sú vinna FME stendur yfir hafa vogunarsjóðirnir jafnframt fallist á að eignarhlutum þeirra í Arion banka fylgi ekki atkvæðisréttur að svo stöddu.

Fimm með meira en helming

Vogunarsjóðurinn Taconic Capital er langsamlega stærsti og áhrifamesti hluthafi Kaupþings. Allt frá því um mitt síðasta ár hefur sjóðurinn staðið að uppkaupum á bréfum annarra hluthafa í félaginu, meðal annars megninu af sex prósenta hlut Seðlabankans í nóvember í fyrra. Á aðeins nokkrum mánuðum bætti vogunarsjóðurinn við sig meira en 20 prósenta hlut í Kaupþingi en í dag á Taconic Capital um 40 prósenta hlut.

Frá því var greint í Viðskiptablaðinu síðastliðinn fimmtudag að fimm fjárfestar ættu meira en helmingshlut í þeim sjóði sem stendur að baki kaupum Taconic Capital í Arion banka. Þar væri um að ræða norður-amerískan lífeyrissjóð, asískan lífeyrissjóð, bandarískan sjóðasjóð, fjársterka fjölskyldu frá Bandaríkjunum og síðan Brosens sjálfan, eiganda vogunarsjóðsins. Engir íslenskir fjárfestar hafa sett fjármuni í sjóðinn sem heldur utan um fjárfestinguna í Arion banka, né aðra sjóði á vegum Taconic Capital, samkvæmt þeim upplýsingum sem Viðskiptablaðið fékk frá vogunarsjóðnum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×