Í meistararitgerð Nínu Jacqueline Becker lýsa fangar þeim sögusögnum sem gengið hafa um fangelsið um nauðganir og misnotkun innan veggja þess. Í ritgerð Nínu er haft eftir einum fanganum: „Þú veist maður er kvenmannslaus og nauðganir eiga sér stað […] en þetta er samt meira þannig að menn eru plataðir í þetta skilurðu […] dópaðir upp og skilurðu en það er alveg verið að níðast á þeim sko […] ef það var kannski ekki inni í manns klefa þá heyrði maður alveg […] þú veist maður veit alveg að þetta er að gerast þó maður sjái ekki allt sjálfur.“

Guðmundur segist taka ritgerðinni með fyrirvara. Margt bendi til þess að viðmælendur í henni séu að gera fullmikið úr tíðni og magni ofbeldis innan fangelsisins. „Aftur á móti er ég alveg sammála því að það er ofbeldi á Litla-Hrauni í allri sinni mynd og kynferðisofbeldi líka, en það er afskaplega sjaldgæft að það gerist. En það kom þarna ákveðið tímabil þegar ákveðinn einstaklingur var þarna.“
Guðmundur bendir á að kynferðisofbeldi innan fangelsisins geti verið mjög falið vandamál. Erfitt sé að viðurkenna að hafa orðið fyrir ofbeldinu. „En þetta er mjög sjaldgæft. Ritgerðin stangast á við skýrslu sem stjórnvöld sendu pyntingarnefndinni fyrir nokkru síðan. Þar segir starfsfólk fangelsanna að ofbeldi sé óalgengt og hafi minnkað með árunum. Ég get alveg verið sammála því.“
Margrét Frímannsdóttir, sem var fangelsisstjóri á Litla-Hrauni á árunum 2008 til 2016, staðfestir að í hennar tíð hafi komið upp tilvik þar sem grunur vaknaði um kynferðisofbeldi innan veggja fangelsisins. „Ef grunur um kynferðisofbeldi vaknar þá er tekið strax á því. Það er heilbrigðisþjónusta og í fangelsinu starfar bæði hjúkrunarfræðingur og geðhjúkrunarfræðingur. Það er reynt að taka á þessu eins faglega og mögulegt er innan kerfisins.“
Páll Winkel fangelsismálastjóri tekur í sama streng. Ofbeldismál komi upp innan veggja fangelsisins en kynferðisofbeldi sé samstundis tilkynnt til lögreglu og heilbrigðisstarfsfólk sé líka kallað til. „Það er ekki algengt að svona mál komi upp en það er þá brugðist við með þeim hætti.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.