Skoðun

Holur hljómur í ASÍ

Guðríður Arnardóttir skrifar
Forysta ASÍ hefur farið mikinn í yfirlýsingum sínum undanfarna daga og vikur. Þar ber hæst sú fullyrðing þeirra að kjarasamningar í opinbera geiranum hafi valdið forsendubresti í samningum á almennum vinnumarkaði. Sérstaklega hefur formanni ASÍ verið tíðrætt um kjarasamninga kennara og sér hann ofsjónum yfir þeim réttmætu leiðréttingum sem kennarar á öllum skólastigum hafa fengið, stétt sem hefur um árabil búið við verulega slaka launasetningu, stétt án fullnægjandi nýliðunar samkvæmt nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar.Þessar yfirlýsingar um forsendubrest vekja furðu mína í ljósi þess að fyrir nokkrum vikum gerði formaður ASÍ þá kröfu að svo kjarasamningar á almennum markaði héldu út árið 2017 yrðu breytingar á lögum um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna að ná fram að ganga.Og svo fór að Alþingi samþykkti breytingar á lögum um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna í bullandi ágreiningi, með þeim rökum að laun skyldi jafna á milli markaða.Hafa ber í huga að á almennum markaði leggja launataxtar sérfræðinga lágmarkslínur og leyfi ég mér að fullyrða að meirihluti starfsfólks á almennum markaði fylgir ekki launatöxtum. Hjá hinu opinbera setja launatöflur skýran ramma um laun og marka í flestum tilfellum hámarkskjör.Sé litið til sérfræðinga á opinberum makaði annars vegar og almennum markaði hins vegar er ljóst að launamunur er verulegur og vantar mikið upp á jöfnun kjara milli markaða.Og það er holur hljómur í orðræðu ASÍ um „óhóflegar“ launahækkanir kennara þegar launarannsóknir sýna að enn eru kennarar eftirbátar kollega sinna á opinberum markaði og standa félögum sínum á almennum markaði langt að baki.

Og nú ætlar ASÍ sem sagt að halda opinberum starfsmönnum í gíslingu til ársins 2018 með þeirri hótun að semji þeir um launahækkanir umfram SALEK-rammann svokallaða muni almenni markaðurinn sækja það sama – ellegar sé fjandinn laus.Það er deginum ljósara að ASÍ barði Alþingi til hlýðni og lagabreytingar um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna voru afgreiddar með þeim fögru fyrirheitum að laun á milli markaða yrðu jöfnuð. Það þýðir einfaldlega að laun opinberra starfsmanna þurfa að hækka meira en á almennum markaði.Hvorki kennarar né aðrir opinberir starfsmenn munu taka því þegjandi ef ASÍ ætlar að halda kjarasamningum þeirra í gíslingu. Opinberir starfsmenn, bæði hjá ríki og sveitarfélögum eru um 40 þúsund talsins og hafa sannarlega slagkraft með samstöðu. Upp á almennilega íslensku er það helvíti skítt ef við þurfum að taka slaginn við forystu ASÍ til að sækja réttmætar kjarabætur – en það er slagur sem við munum taka, komi til þess.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.