Viðskipti innlent

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra boða til blaðamannafundar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson.
Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson. vísir/ernir
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafa boðað til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag. Fundurinn hefst klukkan 14.

Kjarninn greinir frá því að boðað hafi verið til ríkisstjórnarfundar í hádeginu í dag og efni hans sé tillögur um aðgerðir í átt að fullu afnámi fjármagnshafta

Á blaðamannafundinum verða aðgerðirnar kynntar almenningi og fjölmiðlum. Klára þarf að ganga frá þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru áður en markaðir opna í fyrramálið.

Gjaldeyrisviðskipti hafa verið háð takmörkunum frá hruni bankakerfisins haustið 2008

Hinn 28. nóvember 2008 voru settar reglur um gjaldeyrismál, sem heimilaðar voru samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum um gjaldeyrismál.

Með setningu reglnanna var öllum höftum á gjaldeyrisviðskiptum vegna vöru og þjónustuviðskipta aflétt, en teknar upp strangari takmarkanir á fjármagnshreyfingar á milli landa og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengjast.

Hinn 21. október 2016 var með lagabreytingu stigið skref til losunar á takmörkunum á fjármagnsviðskipti og var þá íslenskum fyrirtækjum gert kleyft að fjárfesta nær óheft í útlöndum.

Frá áramótum hefur almenningur getað fjárfest í erlendum hlutabréfum, millifært fé á reikninga erlendis og tekið út gjaldeyri, án þess að framvísa farseðli til útlanda. Hundrað milljón króna þak hefur verið á þessum viðskiptum. Reiknað er með að í dag muni verða gengið lengra í að afnema þessi höft og mögulega verða þau afnumin að fullu.


Tengdar fréttir

Ríkisstjórnin kynnir aðgerðir í gjaldeyrismálum á næstunni

Ríkisstjórnin mun kynna aðgerðir til viðnáms við stöðugri styrkingu krónunnar í þessum mánuði og fjármálaráðherra væntir þess að gjaldeyrishöft verði afnumin gagnvart almenningi og fyrirtækjum innan nokkurra vikna eða mánuða.

Afnám hafta á almenning gæti orðið á næstu vikum

Afnám gjaldeyrishafta á almenning og fyrirtæki í landinu gæti orðið á næstu vikum eða mánuðum. Þetta kom fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×