Viðskipti innlent

Byggðastofnun synjaði en bankinn sá ljós í nýsköpun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hjón sem gerðust bændur á Austfjörðum til nýsköpunar í matvælaframleiðslu segjast hafa rekist á veggi hjá Byggðastofnun og segja stuðningskerfi landbúnaðarins algerlega sniðið að hefðbundnum búskap. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í viðtali við þau Berglindi Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson, sem fyrir þremur árum fluttu úr Reykjavík og keyptu jörðina Karlsstaði á Berufjarðarströnd. 

Berglind er þekkt sem útvarpsmaður og Svavar Pétur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló. Á Karlsstöðum breyttu þau gamla fjósinu í matvælaiðju. Þau framleiða bæði gulrófnaflögur og grænmetispylsur, kallaðar Bulsur, og hráefnið kemur af þeirra eigin akri. 

Þau höfðu séð auglýsingu frá Byggðastofnun um lán til jarðakaupa, sóttu um en var synjað. Þau segjast þá hafa leitað til Íslandsbanka og þar hafi þau notið velvildar.

„En finnst dálítið skrýtið á sama tíma og við vorum þarna með viðskiptahugmynd og plan um að byggja upp rekstur á svolítið nýjum grunni, þá skyldum við fá synjun,” segir Svavar Pétur. 

„Ráðamenn þreytast ekkert á að skreyta sig í ræðum með nýsköpun og lífrænni ræktun, - og allt þetta sem við erum að gera, - tala um fjölbreytni og fjölbreytta atvinnustarfsemi á landsbyggðinni,” segir Berglind.

„Það er alltaf verið að tala um þetta. Svo er bara svo merkilegt að lenda svona á vegg þegar maður er kominn í þetta,” segir Berglind og Svavar Pétur bætur við að þetta sé bara í orði. Það sé ekkert að gerast. 

Gamla bæinn tóku þau undir gistihús og breyttu hlöðunni í veitingastað og tónleikasal en þau njóta góðs af staðsetningu við hringveginn.

„Kerfið er algerlega byggt upp fyrir þennan hefðbundna landbúnað og hann á algerlega rétt á sér. Þetta þarf bara að vinna saman. Sauðfjárbúskapurinn og mjólkurbúskapurinn, grænmetisræktin og nýsköpunin þarf allt að vinna saman og það eiga allir að vera jafnréttháir,” segir Svavar Pétur. 

Nánar var rætt við þau í þættinum „Um land allt” á Stöð 2 í kvöld sem fjallaði um sveitabyggðina við Berufjörð.


Tengdar fréttir

Eignuðust óvænt 60 kindur

Tónlistarhjónin Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson eru bændur í Berufirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×